Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu um hernaðaruppbyggingu Rússa

Frá fundi ráðherranna í dag - myndNATO

Staða öryggismála í Evrópu og hernaðaruppbygging Rússlands í og við Úkraínu var tilefni sérstaks aukafundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fór fram í dag. Á fundinum, sem haldinn var um öruggan fjarfundabúnað, var rædd sú alvarlega staða sem upp er komin vegna aðgerða Rússlands á þessu svæði og áhyggjur af því að hætta sé á hernaðarátökum. Á fundinum lögðu ráðherrar áherslu á að frekari brot myndu hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Rússland. 

Atlantshafsbandalagið hefur lagt áherslu á að halda samskiptaleiðum opnum á undanförnum árum til að geta fundað með Rússlandi og rætt ágreiningsmál, aukið gagnsæi og byggt upp traust. Á fundinum var áréttaður vilji bandalagsríkja til að ræða stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu en þó sérstaklega þá ógn sem steðjar að Úkraínu og þar með stöðugleika í okkar heimshluta. Fundur í NATO-Rússlandsráðinu hefur verið boðaður í því skyni að halda áfram uppbyggilegu samtali. Sá fundur verður 12. janúar nk. 

Staðan í og við Úkraínu hefur verið í brennidepli að undanförnu í öllu fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á virðingu fyrir alþjóðalögum og að hernaðarmáttur megi ekki ráða för í alþjóðasamskiptum. Hernaðaruppbygging við Úkraínu og hótanir Rússlands í garð bandalagsríkja er því mikið áhyggjuefni fyrir ríki Atlantshafsbandalagsins og önnur vestræn lýðræðisríki. Í yfirlýsingu fastaráðs Atlantshafsbandalagsins frá 16. desember sl. var lýst áhyggjum af hernaðaruppbyggingu Rússlands og kallað eftir því að rússnesk stjórnvöld láti af aðgerðum og virði alþjóðlegar skuldbindingar. Stuðningur bandalagsins við Úkraínu er ítrekaður í yfirlýsingunni og sem og réttur Úkraínu til að ákvarða eigin framtíð. 

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Úkraínu 21. desember sl. til að lýsa yfir áhyggjum af stöðu og þróun mála, árétta stuðning Norðurlandanna við fullveldi og landamærahelgi landsins, og rétt úkraínsku þjóðarinnar til að ákvarða eigin framtíð án utanaðkomandi afskipta.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í fundinum í dag í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta