Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði málþing um jafnrétti á norðurslóðum
Mikilvægi kynjajafnréttis fyrir sjálfbæra þróun á norðurslóðum var helsta umfjöllunarefnið í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á málþingi um jafnréttismál á norðurslóðum. Málþingið er hluti af fyrirlestraröðinni Vísindi á norðurslóðum, sem er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í Ottawa, sendiráðs Kanada í Reykjavík, Polar Knowledge Canada og Norðurslóðanets Íslands.
Þórdís Kolbrún lagði áherslu á mikilvægi jafnréttis á svæðinu þegar hún opnaði málþingið í dag. „Jafnrétti kynjanna er forsenda sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum og undirstaða samfélagslegrar velferðar og stöðugleika. Um er að ræða grundvallar mannréttindi sem leggja grunninn að eftirsóknarverðu og réttlátu samfélagi,“ sagði hún í ávarpinu.
Jafnrétti kynjanna er einn af megin þáttum í starfi Íslands á alþjóðavettvangi og hefur Ísland lengi lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál á norðurslóðum. Málaflokkurinn var meðal áherslusviða í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu árin 2019-2021 og hefur Ísland einnig stutt við verkefnið Kynjajafnrétti á norðurslóðum (e. Gender Equality in the Arctic – GEA) allt frá því að það var sett á laggirnar árið 2013.
Á málþinginu var rætt um alþjóðlega skýrslu GEA um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum sem kom út síðasta vor. Að baki skýrslunni standa tíu aðalhöfundar auk um 80 meðhöfunda og var mikil áhersla lögð á samstarf og virka þátttöku samstarfs- og hagaðila við undirbúning og vinnslu skýrslunnar.
„Skýrslan sýnir meðal annars fram á mikilvægi þess safna þurfi kyngreindum gögnum í tengslum við sérstöðu norðurslóða. Gögn og tölfræði sem varpa ljósi á mismunandi sjónarmið fólks eða áhrif breytinga á líf þess, eru lykilatriði fyrir upplýsta stefnumótun.“ sagði Þórdís Kolbrún.
Fyrirlestraröðin Vísindi á norðurslóðum er hluti af verkefnum tengdum 75 ára afmæli stjórnmálasamskipta Íslands og Kanada.
Skýrslur GEA má finna á heimasíðu verkefnisins.