Lilja Dögg ávarpaði höfundarréttarráð
„Það er mikið gleðiefni að geta fundað nú með hagsmunaaðilum á sviði höfundaréttar,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, á fundi Höfundarréttarráðs fyrr í dag. Höfundaréttarráð er mikilvægur vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.
Aðalefni fundar höfundaréttarráðs að þessu sinni var kynning á tilskipun ESB 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum sem oftast er nefnd DSM tilskipunin. „Innleiðing DSM tilskipunar í íslenskan rétt mun hafa mikilvæg áhrif á hvernig höfundaréttar er höndlaður í netheimi og einnig hafa áhrif á samninga höfunda og listflytjenda um not verka og listflutnings, hvort sem er á netinu eða annars staðar. Þetta eru atriði sem eru hugleikin öllum sem höndla með verk sem háð eru höfundarétti sem og listflutning,“ sagði Lilja.
Innleiðing tilskipunarinnar varðar annars vegar stafrænan höfundarétt og notkun höfundaréttarvarinna verka og listflutnings í netheimum, t.d. vegna texta- og gagnanáms, fjarkennslu í menntastofnunum, um hvernig eigi að tryggja rétt útgefenda fréttaefnis á netinu og hvernig eigi að einfalda leyfisveitingar vegna notkunar höfundaréttarvarins efnis t.d. á samfélagsmiðlum. Hins vegar fjallar tilskipunin hvernig tryggja eigi sanngjarna þóknun til höfunda og listflytjenda, hvort sem er vegna nota framlags þeirra á netinu eða annars staðar.
Á fundinum voru haldin sex stutt erindi af höfundaréttarsérfræðingum um tiltekin meginefni tilskipunarinnar og álitamál þeim tengd. Að þeim loknum voru spurningar og umræður og spunnust fjörugar og áhugaverðar umræður um þessi flóknu en mikilvægu álitaefni.
Fundurinn var hugsaður sem fyrsta skref í samráðs- og kynningarferli vegna innleiðingar þessarar mikilvægu tilskipunar á sviði höfundaréttar.
Um höfundarréttarráð
Kveðið er á um höfundaréttarráð í höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum og í reglugerð nr. 500/2008. Rétt til setu eiga fulltrúar hagsmunaaðila höfunda, flytjenda, útgefenda og notenda, t.d. fjölmiðlar, fjarskiptafyrirtæki og söfn. Höfundaréttarráð er skipað til fjögurra ára og var yfir 60 hagsmunaaðilum boðið að tilnefna fulltrúa.