Til umsagnar: Reglugerð um kostnaðarvigtir og einingaverð (DRG)
Birt hafa verið til umsagnar drög að reglugerð heilbrigðisráðherra um kostnaðarvigtir og einingaverð vegna samninga um þjónustutengda fjármögnun heilbrigðisþjónustu. Reglugerðin tengist nýlegum samningum Sjúkratrygginga Íslands við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri sem kveða á um að umtalsverður hluti klínískrar þjónustu sjúkrahúsanna skuli fjármagnaður í samræmi við umfang veittrar þjónustu sem byggist á alþjóðlega sjúklingaflokkunarkerfinu DRG (Diagnosis Related Groups). Eins og fram kemur í samningunum skal ráðherra ákveða kostnaðarvigtir og einingaverð með reglugerð. Umsagnarfrestur er til 26. janúar næstkomandi.
Reglugerðardrögin ásamt fylgiskjali með einingaverði voru unnin í samráði við stjórnendur sjúkrahúsanna tveggja.