Framlenging viðspyrnustyrkja
Fjármála- og efnahagsráðherra mun á næstu dögum leggja fyrir Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar um framhald á viðspyrnustyrkjum vegna sóttvarnaráðstafana. Gert er ráð fyrir að styrkirnir verði framlengdir í fjóra mánuði, frá desember 2021 til mars 2022.
Viðspyrnustyrkir voru veittir til að aðstoða rekstraraðila við að standa undir rekstrarkostnaði frá nóvember 2020 og út nóvember 2021. Styrkirnir nýttust ekki síst smærri rekstraraðilum, t.a.m. í ferðaþjónustu, veitingasölu, heild- og smásölu, sem og í menningargreinum. Alls hafa viðspyrnustyrkir fyrir rúmlega 10 milljarða króna verið greiddir til 1.800 rekstraraðila. Þar af hafa um 4 milljarðar króna farið til ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjenda og gististaða.
Samhliða efnahagsbatanum og ekki síst fjölgun erlendra ferðamanna minnkaði aðsókn í viðspyrnustyrki. Í ljósi snöggs viðsnúnings í ferðaþjónustugreinum sem urðu fyrir áhrifum sóttvarnaráðstafana undir lok árs 2021 hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til framhald styrkjanna fyrir desember 2021 og janúar, febrúar og mars 2022.
Markmiðið með styrkjunum er að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.
Gert er ráð fyrir að skilyrði viðspyrnustyrkja verði í öllum meginatriðum óbreytt frá því sem verið hefur. Skatturinn sér um afgreiðslu styrkjanna.