Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýtt matvælaráðuneyti tekur til starfa: Skipum okkur í fremstu röð í framleiðslu hágæða matvæla

„Í matvælaráðuneytinu horfum við til þess að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu hágæða matvæla. Við leggjum áherslu á ábyrga umgengni við náttúru og sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki,“ segir í stefnumiði nýs Matvælaráðuneytis sem tekur til starfa í dag 1. febrúar 2022.  Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.

„ Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi mynda þungamiðjuna í innlendri framleiðslu matvæla og hafa mikil og sterk tengsl við atvinnu fólksins í landinu. Með ráðuneyti matvæla gefst tækifæri til að leggja áherslu á matvælaframleiðsluna, nýsköpun og eflingu loftslagsmála og bæta þar með lífsskilyrðin í landinu okkar enn frekar. Markmiðið er að hér sé gott að búa og starfa, þannig að hér ríki velsæld og jöfnuður og að þannig verði það áfram fyrir kynslóðir framtíðarinnar,“ segir Svandís. 

Í matvælaráðuneytinu, MAR, mætast málaflokkar sjávarútvegs, landbúnaðar og matvæla auk landgræðslu og skógræktar. Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni, jöfnuð og nýsköpun. Í stefnumiði þess segir:  

„Matvæla- og fæðuöryggi er eitt meginstefið í störfum okkar sem og hugmyndafræði einnar heilsu þar sem heilbrigt umhverfi, heilsa fólks og heilbrigði dýra mynda samfelldan vef. Vistkerfisnálgun og sjónarmið varúðar eru sá grunnur sem byggt er á þegar taka þarf ákvarðanir og eru þá höfð í huga ýmis samfélagsgæði, viðkvæm vistkerfi til framtíðar litið, jöfnuður óháð efnahag, kyni, uppruna eða búsetu, og hagur heildarinnar í efnahagslegu tilliti, nær og fjær. Orðspor Íslands á alþjóðavettvangi er okkur hugleikið ásamt þeim hagsmunum sem gæta þarf að í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Lofslagsmálin eru allt um lykjandi í öllum okkar störfum, sem og alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni og sameiginlega ábyrgð mannkyns á möguleikum komandi kynslóða til velsældar og fjölbreyttra tækifæra í lífi og starfi.“

Starfstöðvar hringinn í kring um landið

Undir ráðuneytið heyra sex stofnanir (Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, Matvælastofnun, Landgræðslan og Skógræktin) og eitt opinbert hlutafélag (Matís). Fjórar stofnanir ráðuneytisins eru með höfuðstöðvar á landsbyggðinni (Akureyri, Selfossi, Egilsstöðum og Gunnarsholti) og Hafrannsóknastofnun er staðsett í Hafnarfirði. Starfsstöðvar þeirra um landið eru 38 talsins. Ráðherra mun nú funda með starfsfólki stofnanna og stjórnendum og boða til opinna funda hagaðilum síðar í vetur

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
15. Líf á landi
16. Friður og réttlæti
10. Aukinn jöfnuður
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta