Til umsagnar: Frumvarp að nýjum sóttvarnalögum
Birt hafa verið til umsagnar drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til nýrra heildarlaga um sóttvarnir. Lagðar eru til ýmsar breytingar á stjórnsýslu málaflokksins og lagt til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt. Umsagnarfrestur er til 15. febrúar næstkomandi.
Frumvarpið er samið af starfshópi heilbrigðisráðherra sem skipaður var 18. júní á liðnu ári. Áður höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á gildandi sóttvarnalögum með frumvarpi sem varð að lögum í febrúar 2021 og miðuðu einkum að því að styrkja og skýra lagastoð fyrir opinberum sóttvarnaráðstöfunum. Fram kom í áliti velferðarnefndar Alþingis við meðferð þess frumvarps að æskilegt væri að gera ákveðnar breytingar á stjórnsýslu málaflokksins, m.a. til að skýra ábyrgð og samspil sóttvarnalaga við lög um landlækni og almannavarnir. Ekki væri þó ráðlegt að ráðast í of víðtækar breytingar á stjórnsýslu sóttvarnamála á viðkvæmum tíma í miðjum heimsfaraldri.
Hér að neðan eru talin helstu nýmæli sem felast í meðfylgjandi frumvarpsdrögum. Eins og þar kemur fram er lögð til skipun níu manna farsóttanefndar sem taka mun að nokkru leyti við verkefnum sóttvarnalæknis, þ.e. að koma með tillögur til ráðherra um beitingu veigamestu opinberu sóttvarnaráðstafanna. Markmiðið er að færa framangreint verkefni og ábyrgð sem því fylgir á fleiri hendur með breiðari þekkingu og skírskotun. Einnig er ætlunin með þessu að styrkja sóttvarnalækni og almannavarnir varðandi stefnu og ákvarðanir þegar farsótt geisar og koma formlega á laggirnar virkum samráðsvettvangi helstu viðbragðsaðila.
Helstu nýmæli samkvæmt frumvarpsdrögunum:
- Lagt er til að sérstakt markmiðsákvæði komi inn í sóttvarnalög.
- Lagt er til gildissviðsákvæði og sérstakt ákvæði um þá sjúkdóma sem lögin taka til. Í því ákvæði er lögð til tiltekin stigskipting sjúkdóma, þ.e. smitsjúkdómar, alvarlegir sjúkdómar og samfélagslega hættulegir sjúkdómar.
- Lagt er til að heimildir stjórnvalda til sóttvarnaráðstafana taki mið af framangreindri stigskiptingu sambærilegt því og gildir í Danmörku. Einungis megi grípa til veigamestu ráðstafananna þegar um samfélagslega hættulegan sjúkdóm er að ræða.
- Lagðar eru til breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Þannig er lagt til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra líkt og landlæknir og aðrir forstöðumenn stofnana samhliða því að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlækni. Enn fremur að nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, verði sett á laggirnar sem skilar inn tillögum til ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma.
- Samhliða stofnun farsóttanefndar verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður í nýjum heildarlögum um sóttvarnir. Þó er lagt til í frumvarpinu að sóttvarnalæknir hafi heimild til að kveða sér til ráðgjafar sérfræðinga vegna þeirra verkefna sem falla undir hlutverk sóttvarnalæknis.
- Lagt er til að kaflinn um opinberar sóttvarnaráðstafanir og einstaka ákvæði hans verði brotin upp og framsetning einfölduð frá sóttvarnalögum nr. 19/1997. Jafnframt eru settar tilteknar skorður við tímalengd opinberra sóttvarnaráðstafana.
- Lagt er til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt.
- Lagt er til að viðurlagaákvæði laganna verði uppfært í samræmi við löggjafarþróun síðari ára.
Í ljósi áskorunar velferðarnefndar Alþingis um að flýta frumvarpinu eins og kostur er svo Alþingi fái meiri tíma til að fjalla um málið er frumvarpið sett í samráðsgátt í tvær vikur en gera má ráð fyrir að velferðarnefnd Alþingis muni sjálf óska eftir umsögnum þegar málið kemur til nefndarinnar.