Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Tannverndarvika 2022

Nú stendur yfir árleg tannverndarvika sem embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir. Í tilefni af tannverndarvikunni hefur nýtt mælaborð tannheilsu verið birt á vef embættis landlæknis. Mælaborðið er gagnvirkt og birtir tölulegar upplýsingar um fjölda tannfyllinga hjá börnum sem mæta í reglulegt eftirliti hjá heimilistannlækni. Mælaborðið byggir á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands og ná þau aftur til ársins 2005. Stefnt er að því að uppfæra mælaborðið árlega. Í tannverndarviku er foreldrum og forráðamönnum bent á að kostnaður vegna almennra tannlækninga barna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald sem mest er greitt einu sinni á 12 mánaða tímabili. Forsenda gjaldfrjálsra tannlækninga er að börn hafi heimilistannlækni og bera foreldrar ábyrgð á tímapöntun hjá heimilistannlækni og skráningu í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands.

Í tannverndarviku eru stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is.

Fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur eru hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru í tannverndarviku og afnema á sama tíma afsláttarkjör af sælgæti og súrum drykkjum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta