Jafnlaunavottun eykur jafnrétti innan vinnustaða
Innleiðing jafnlaunastaðalsins hefur aukið gagnsæi launaákvarðana og þar með traust starfsfólks til málefnalegrar launasetningar. Þetta gefa þær kannanir til kynna sem gerðar hafa verið á jafnlaunastaðlinum en í viðhorfskönnun sem Maskína gerði fyrir forsætisráðuneytið í lok síðasta árs var kannaður framgangur og viðhorf til jafnlaunavottunar hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem höfðu lokið eða áttu að ljúka innleiðingu fyrir áramótin. Þetta er í fjórða sinn sem ráðuneytið kannar viðhorf stjórnenda til innleiðingar jafnlaunastaðalsins og jafnlaunavottunar.
Stjórnendur telja að helsti ávinningur af innleiðingu sé betra skipulag við launasetningu, bætt orðspor fyrirtækis/stofnunar, staðlað launakerfi og jöfn laun kynjanna. Tímaskortur og skortur á leiðbeiningum, mannafla og kostnaður eru atriði sem stjórnendur telja íþyngjandi við innleiðingu staðalsins.
Athygli vakti að innleiðing jafnlaunastaðalsins hafði víða þau áhrif að aðrir þættir tengdir jafnrétti á vinnustaðnum voru teknir til skoðunar. Þar nefna svarendur að þættir eins og meðallaun eftir kyni, hlunnindi starfsfólks, kynjahlutfall í starfaflokkum, fjöldi kvenstjórnenda, aukagreiðslur eftir kynjum, starfslýsingar og kynjaskipting á vinnustað hafi verið endurmetnir í innleiðingarferlinu. Af þessu má ráða að innleiðing staðalsins hafi haft jákvæð áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði umfram þær kröfur sem innleiðing staðalsins mælir fyrir um.
Nú hafa 355 fyrirtæki og stofnanir lokið við innleiðingu jafnlaunastaðalsins og fengið jafnlaunavottun. Á þessu ári eiga þau fyrirtæki sem hafa 25-89 starfsmenn að innleiða staðalinn.
Jafnréttisstofa hefur birt á vefsvæði sínu myndrænt yfirlit um stöðu jafnlaunavottunar í lok ársins 2021.