Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilsuteymi fanga fest í sessi með varanlegri fjármögnun

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Í ljósi góðrar reynslu af þjónustu geðheilsuteymis fanga hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að tryggja rekstur þess til frambúðar með föstu fjármagni. Teymið var sett á fót sem nýsköpunarverkefni á sviði geðheilbrigðismála til eins árs árið 2020 og síðan framlengt um eitt ár. Algjör stakkaskipti hafa orðið á geðheilbrigðisþjónustu við fólk sem afplánar dóma í fangelsum með tilkomu teymisins, líkt og að var stefnt og ljóst er að þörfin fyrir þjónustuna er mikil.

„Það leikur enginn vafi á því hversu mikilvæg þessi þjónusta er og því viljum við festa hana í sessi og sinna henni vel. Góð líðan og andleg heilsa er okkur öllum mikilvæg og getur í tilvikum þessa hóps skipt sköpum“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Geðheilsuteymi fanga er rekið af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en sinnir þjónustu á landsvísu. Framan af sinnti teymið einkum þjónustu við einstaklinga sem sæta afplánun eða gæsluvarðhaldi en sinnir nú einnig í vaxandi mæli eftirfylgd með föngum sem eru á reynslulausn. Teymið sinnir almennri geðheilbrigðisþjónustu, svo sem greiningu og meðferð geðraskana, fíknivanda og taugaþroskaraskana, t.d. ADHD, auk þess að annast tilvísanir á aðra þjónustu eftir þörfum. Þjónustan er þverfagleg og er veitt með heimsóknum í fangelsin, símaviðtölum og fjarfundabúnaði. 

Fjöldi þjónustuþega tvöfaldaðist milli ára

Á fyrsta starfsári sínu 2021 vann teymið að því að móta og skipuleggja þjónustu sína samhliða því að veita mjög aðkallandi geðþjónustu í fangelsum landsins til að mæta uppsafnaðri þörf. Fyrstu 10 mánuði ársins (jan. – okt.) sinnti geðheilsuteymið 95 einstaklingum en heildarfjöldi samskipta var 687. Á sama tímabili árið 2021 sinnti teymið 191 einstaklingi en heildarfjöldi samskipta var 2.140. Fjöldi þjónustuþega tvöfaldaðist því milli ára.

Eins og áður segir veitir geðheilsuteymi fanga þjónustu í öllum fangelsum landsins, þ.e. á Hólmsheiði, Litla Hrauni, Kvíabryggju og á Sogni. Teymið telur 4,3 stöðugildi, þ.e. yfirlækni í fullu starfi, 1,7 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og 1,6 stöðugildi sálfræðinga. Árlegur kostnaður við rekstur teymisins nemur um 84 milljónum króna sem með ákvörðun heilbrigðisráðherra er nú hluti af föstu framlagi inn í rekstrargrunn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta