Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir 3. áfanga rammaáætlunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um 3. áfanga rammaáætlunar, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Sagði Guðlaugur Þór það vera von sína að þingið nái að fjalla efnislega um tillöguna og afgreiða hana í vor. Rammaáætlun sé mikilvægt stjórntæki og ekki megi tapa sjónum af því að henni sé ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu virkjunarkosta.

„Við verðum að hafa í huga að við ætlum okkur að uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér í loftslagsmálum. Þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg varða á  þeirri vegferð. Hún veitir okkur líka leiðsögn um forgangsröðun og á hvaða svæðum ætti alls ekki að vinna að orkuöflun, byggt á mati sérfræðinga á náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru til umfjöllunar og mati á mögulegum áhrifum á aðra nýtingu s.s. ferðaþjónustu. Eðlilegt er að þingið taki mið af þessu mati,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þingsályktunartillagan er nú lögð fram óbreytt frá 151., 146. og 145. löggjafarþingi, fyrir utan þau svæði sem hafa verið friðlýst á grundvelli gildandi áætlunar. Þar er að finna tillögur til umfjöllunar og ákvarðanatöku Alþingis um virkjanakosti sem ýmist eru flokkaðir í nýtingar-, verndar- eða biðflokk skv. lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

 

Virkjunarkostir í rammaáætlun

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta