Ástríður Jóhannesdóttir skipuð framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar
Landskjörstjórn hefur skipað Ástríði Jóhannesdóttur, lögfræðing, í embætti framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar.
Ástríður lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998 og meistaraprófi frá Háskólanum í Konstanz í Þýskalandi árið 2000. Hún hefur sinnt margvíslegum störfum hjá opinberum aðilum og starfaði á árunum 2000 – 2008 hjá Fasteignamati ríkisins og árin 2008 – 2011 hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Ástríður starfaði hjá Þjóðskrá Íslands á árunum 2011 – 2020 þar af sem sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs frá 2015. Frá maí 2021 hefur hún starfað hjá Vegagerðinni. Ástríður hefur í störfum sínum sinnt margvíslegum verkefnum sem tengjast framkvæmd kosninga. Þá hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum og sinnt stundakennslu í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands og háskólann á Bifröst.
Landskjörstjórn var sett á fót í byrjun árs 2022 sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd kosninga og til að annast framkvæmd kosningalaga. Landskjörstjórn heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra sem fer með málefni kosninga. Formaður landskjörstjórnar er Kristín Edwald, lögmaður en aðrir í landskjörstjórn eru: Ólafía Ingólfsdóttir og Hulda Katrín Stefánsdóttir, kosnar af Alþingi og Magnús Karel Hannesson og Ebba Schram, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.