Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði

Það var tekið vel á móti Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hjá Ás.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur styrkt nýtt verkefni hjá Ási styrktarfélagi sem miðar að því að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði. Styrkurinn hljóðar upp á 21,5 milljón króna. Ráðherra hefur falið Vinnumálastofnun að útfæra verkefnið og hafa aðilar undirritað samkomulag við Ás styrktarfélag um framkvæmdina.

Tilgangur verkefnisins er að þjálfa ungt fólk með fötlun til starfa á almennum vinnumarkaði, hjálpa því að finna vinnu og aðstoða það við að halda henni. Mikil áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði og fá einstaklingar sambland af fræðslu og starfsþjálfun í níu mánuði hjá samstarfsfyrirtækjum. Eftir að þeim tíma lýkur á  starfsmaðurinn kost á að fá vinnu hjá fyrirtækinu eða öðru sambærilegu fyrirtæki ef hann hefur staðist þær kröfur sem til hans eru gerðar. Með verkefninu verður jafnframt unnið markvisst að því að vinnustaðamenning verði þannig að starfsmanni með fötlun sé tekið á jafningjagrundvelli og að hann tilheyri starfsmannahópnum frá upphafi ráðningar.

Um er að ræða sérstaka aðferðarfræði að bandarískri fyrirmynd og nefnist verkefnið Project Search á ensku. Verkefnið var upphaflega sett af stað árið 1996 og er í dag starfað eftir módelinu víðsvegar í Bandaríkjunum og 10 öðrum löndum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Ég legg mikla áherslu á að fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með fötlun og skerta starfsgetu. Það að tilheyra hópi og hafa hlutverk skiptir okkur öll miklu máli í lífinu. Um er að ræða spennandi verkefni sem hefur sannað sig víða um heim og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þess næstu misserin og hvort og þá hvernig við gætum mögulega byggt á því til lengri framtíðar í atvinnumálum fatlaðs fólks.“

  • Valgerður Unnarsdóttir hjá Ás styrktarfélagi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri ráðgjafar og vinnumiðlunar hjá Vinnumálastofnun, skrifuðu undir samninginn í húsakynnum Ás.  - mynd
  • Efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta