Nýtt skipurit forsætisráðuneytisins
Forsætisráðherra hefur staðfest nýtt skipurit forsætisráðuneytisins sem tekur gildi 1. apríl nk. Breytingum í skipuriti er ætlað að efla ráðuneytið enn frekar til að bregðast við ytri áskorunum með áherslu á stöðugar umbætur, forystu og samhæfingu.
Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að efla heildarsýn á starfsemi ráðuneytisins og auka samhæfingu og samvinnu þvert á skrifstofur. Í því skyni verða sett á fót þrjú innri teymi; umbótateymi, mannauðs- og starfsþróunarteymi og fjármálateymi.
Skrifstofa innri þjónustu
Skrifstofan sinnir m.a. rekstri og fjármálum ráðuneytisins, fjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga og áætlanagerð fyrir ráðuneytið og stofnanir þess. Auk þess hefur skrifstofan umjón með fasteignum forsætisráðuneytisins og húsnæðismálum Stjórnarráðsins. Þá ber skrifstofan ábyrgð á gæðamálum og þróun starfseminnar ásamt skjalavistun og málaskrá.
Skrifstofa stjórnskipunar og stjórnsýslu
Skrifstofa yfirstjórnar og skrifstofa löggjafarmála sameinast í skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu. Skrifstofan ber m.a. ábyrgð á túlkun og þróun stjórnarskrár, stjórnsýslulaga og annarrar löggjafar sem heyrir undir ráðuneytið. Skrifstofan fer einnig með mannauðsmál, upplýsingagjöf til almennings og samskipti við fjölmiðla, undirbúning ríkisstjórnarfunda, málefni ríkisráðs, Þjóðaröryggisráðs og samskipti við Alþingi og forseta Íslands. Þá hefur skrifstofan umsjón með þjóðlendum og alþjóðadagskrá forsætisráðherra.
Skrifstofa stefnumála
Skrifstofan styður m.a. við stefnumótun ríkisstjórnar og sinnir eftirfylgni með stefnu hennar. Skrifstofan sinnir einnig samhæfingu lykilverkefna þvert á ráðuneyti, veitir forsætisráðherra ráðgjöf varðandi þjóðhagsmál, hagstjórn og peningastefnu og heldur utan um starfsemi Þjóðhagsráðs og samskipti við aðila vinnumarkaðarins. Þá styður skrifstofan við stefnumörkun og innleiðingu stefnu um sjálfbært Ísland.
Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála
Skrifstofan ber m.a. ábyrgð á þróun löggjafar og stefnumótun á sviði jafnréttis- og mannréttindamála, þ.m.t. málefnum hinsegin fólks. Skrifstofan sinnir einnig alþjóðastarfi á sviði jafnréttis- og mannréttindamála ásamt samhæfingu, ráðgjöf og stuðningi við stefnumörkun innan Stjórnarráðsins í jafnréttis- og mannréttindamálum.