Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Ástandið í og við Úkraínu efst á baugi varnarmálaráðherrafundar

Frá fundi ráðherranna í dag - myndAtlantshafsbandalagið

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins komu saman til fundar í Brussel í gær og í dag. Öryggisáskoranir í tengslum við framferði Rússa gagnvart Úkraínu voru þar í brennidepli. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn sem lauk í dag.

Meginefni fundarins var ástandið í og við Úkraínu og áhrif þess á öryggi í Evrópu. Rætt var um fælingarmátt og varnir aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og tilraunir til samtals við rússnesk stjórnvöld í þeim tilgangi að draga úr spennu á svæðinu. Varnarmálaráðherrar Úkraínu og Georgíu tóku þátt í hluta fundarins og var stuðningur bandalagsins við þessi tvö ríki áréttaður, en þau standa frammi fyrir ólögmætri hersetu Rússlands innan sinna landamæra.

„Ógnandi tilburðir Rússlands valda miklum áhyggjum, ekki síst í ljósi þess sem sagan kennir okkur. Framferði Rússa stuðlar að uppbyggingu og stigmögnun spennu í samskiptum ríkja og slíkt ástand felur í sér sjálfstæða hættu á átökum. Það er því ákaflega mikilvægt að dregið sé úr spennu með viðræðum og áframhaldandi samtali. Því miður hefur framferði Rússa ekki gefið tilefni til aukins trausts í slíkum samskiptum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Til viðbótar við málefni Úkraínu ræddu varnarmálaráðherrarnir fjármögnun Atlantshafsbandalagsins og mótun næstu grunnstefnu þess sem fyrirhugað er að leggja fyrir leiðtogafund bandalagsins í júní. Þá var samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála til umræðu. Varnarmálaráðherrar Finnlands og Svíþjóðar og utanríkismálastjóri Evrópusambandasins sátu þann hluta fundarins.

„Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu er hornsteinn í öryggismálum íslensku þjóðarinnar. Þetta er ákaflega farsælt samstarf sem hefur í meira en sjötíu ár staðið vörð um frið, öryggi og alþjóðalög í álfunni. Hagsmunir Íslands felast í því að virðing fyrir alþjóðalögum, landamærum og lögsögu sé það sem ræður í samskiptum milli ríkja, óháð stærð eða hernaðarmætti. Þar skiptir Atlantshafsbandalagið sköpum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Yfirlýsingu varnarmálaráðherrafundarins er að finna hér. 

  • Þórdís Kolbrún og Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta