Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Hagsmunir Íslands í EES-samstarfinu í brennidepli á fundum utanríkisráðherra í Brussel

Þórdís Kolbrún ásamt Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer m.a. með málefni EES-samningsins.  - mynd

Samstarf á vettvangi EES, viðskiptamál og pólitískt samráð um alþjóðamál voru meðal umræðuefna á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í gær og í dag.

„Aðild Íslands að EES-samningnum hefur fært Íslendingum ótvíræðan ávinning á undanförnum áratugum. Aðgangur okkar að 450 milljóna markaðssvæði er ákaflega mikilvægur, en við það bætist margvíslegt annað samstarf sem Íslendingar og aðrir íbúar á EES svæðinu njóta góðs af. Það er auðvitað mikilvægt að eiga góð og uppbyggileg samskipti milli samningsaðila og ég verð vör við velvilja í garð EES samstarfsins hjá þeim sem ég hef hitt. Á fundum mínum hef ég lagt mikla áherslu á tollfrelsi í viðskiptum með sjávarfang og lagði einnig áherslu á þýðingu þess að efla virkt samráð um utanríkispólitísk málefni, til dæmis á sviði alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Við höfum nú þegar fundið fyrir auknum skilningi á þessu sjónarmiði,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Þórdís Kolbrún fundaði í gær með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer m.a. með málefni EES-samningsins. Auk framkvæmdar samningsins var sérstaklega rætt um áhrif mikilvægra stefnumála á borð við Græna sáttmálann og Stafræna starfsskrá ESB á innri markaðinn og sameiginleg markmið Íslands og ESB. Auk þess var farið yfir undirbúning viðræðna um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Í því sambandi tók ráðherra sérstaklega upp málefni sem snúa að fríverslun með sjávarafurðir og endurskoðun samnings um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Ótryggt ástand í öryggismálum í Evrópu bar einnig á góma og lagði ráðherra áherslu á mikilvægi samráðs við Ísland og hin EFTA-ríkin í EES  þegar kæmi að aðgerðum eins og viðskiptalegum þvingunaraðgerðum.

Í dag átti utanríkisráðherra svo fund með Valdis Dombrovskis, framkvæmdastjóra viðskiptamála. Á fundinum var rætt um viðskipti Íslands og ESB og hugmyndir Íslands um endurskoðun á núverandi viðskiptaumhverfi, einkum fyrir sjávarafurðir auk þess sem vikið var að endurskoðun samningsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

„Að undanförnu höfum við sótt á um bættan aðgang fyrir sjávarafurðir inn á Evrópu, bæði til að bregðast við breyttum þörfum markaðarins en einnig til að tryggja okkur í samkeppni gagnvart öðrum þjóðum. Ég ítrekaði afstöðu okkar um að tímabært sé að hefja alvarlegar viðræður um fulla fríverslun með sjávarafurðir jafnframt því að leysa þyrfti úr þeim atriðum sem tengjast viðskiptum með landbúnaðarvörur“, sagði Þórdís Kolbrún.   

Einnig átti ráðherra fund með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála, Janusz Wojciechowski, þar sem rætt var um stöðu og framkvæmd gildandi samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og endurskoðun hans.

Í ferðinni kynnti ráðherra sér einnig starfsemi EFTA-skrifstofunnar, Eftirlitsstofnunar EFTA og skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES, í EFTA-húsinu. Tóku forstöðumenn stofnananna á móti henni og ræddu þau helstu mál á vettvangi EES-samstarfsins og í starfsemi stofnananna.

  • Þórdís Kolbrún og Valdis Dombrovskis - mynd
  • Þórdís Kolbrún skoðaði EFTA-húsið, hér er hún með Andra Lútherssyni, aðstoðarfrkvstj. EFTA. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta