Reglugerðarbreytingar til stuðnings ferðaþjónustunni
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur undirritað tvær reglugerðir sem koma til móts við erfiða lausafjárstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins.
Annars vegar er aðilum sem hafa leyfi til reksturs ökutækjaleigu veitt undanþága til að halda áfram starfsemi þrátt fyrir að skuldir í skatta og opinber gjöld nemi allt að 10 m.kr., gegn því skilyrði að leyfishafi standi við fyrirliggjandi greiðsluáætlun við skattayfirvöld um niðurgreiðslu skuldar.
Hins vegar er samskonar undanþága veitt rekstrarleyfishöfum veitinga- og gististaða. Hún nær til rekstrarleyfishafa sem skulda allt að 20 m.kr. í skatta og opinber gjöld, en í slíkum tilvikum verður rekstrarleyfishöfum einnig gert skylt að leggja fram fullnægjandi tryggingu í formi ábyrgðaryfirlýsingar viðskiptabanka eða sparisjóðs.
„Við höfum lagt kapp á að styðja við ferðaþjónustuna á tímum heimsfaraldurs. Það er nauðsynlegt að leita allra leiða til að gera fyrirtækjum í ferðaþjónustu kleift að ná vopnum sínum, nú þegar við sjáum loksins hilla undir bjartari tíma eftir erfiðan rekstur undanfarin misseri. Með þessum reglugerðarbreytingum er liðkað til á tíma þar sem öllu skiptir að vel takist til koma ferðaþjónustunni aftur á fullt skrið“, segir Lilja Dögg.