Samningar við Neyðarlínuna undirritaðir
Markmið með vaktstöð fyrir samræmda neyðarsvörun fyrir Ísland er að sinna viðtöku tilkynninga um fólk, eignir og umhverfi í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð.
Neyðarlínan hefur sinnt samræmdri neyðarsvörun og númerinu 112 frá árinu 1996 og Tetra frá 2006 þegar fyrsti sameiginlegi samningurinn var gerður. Höfuðstöðvar Neyðarlínunnar eru í Skógarhlíð 14 í tengslum við stjórnstöð almannavarna, en hjá Neyðarlínunni eru 44 starfsmenn.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar undirrituðu samningana á 112-deginum, 11. febrúar.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:
„112 hefur með tímanum orðið sterk táknmynd fyrir skýran hjálparvilja. Við sameinumst öll í því að vilja rétta út hjálparhönd til þeirra sem eru í neyð og við gerum þá kröfu að viðbrögðin séu ekki aðeins aðgengileg og til staðar heldur að viðbrögðin séu skjót og fagleg. Markvisst hefur verið unnið að því að fækka skrefum í átt að hjálp. Á bak við þetta einfalda númer hafa yfirvöld, Neyðarlínan og fjöldi viðbragðsaðila um allt land unnið gríðarmikið og gott verk í því að samræma vinnubrögð og samskipti til þess að tryggja að símsvörunin sé einungis fyrsta skrefið á traustu og faglegu ferli í neyðarviðbrögðum. 112 hefur jafnt og þétt orðið þungamiðja í öllum okkar aðgerðum til að koma fólki í neyð til hjálpar. Hvort sem hættan sem að steðjar, er af völdum umferðar, elds, náttúruafla, ofbeldismanna eða veikinda eru skilaboðin einföld: Hringdu í 112 – þú veist að þar er fagfólkið að hlusta og þú ert í góðum höndum.“
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar:
„Mér verður reglulega hugsað til þess að haustið 1995 voru hér 146 neyðarnúmer, þar sem fólk í neyð þurfti að hringja í mismunandi símanúmer eftir því hvar það var statt og hvers eðlis neyðin var. Það var ekki sama númerið fyrir slys, eldsvoða eða veikindi. Það var mikið framfaraskref sem tekið var 1. janúar 1996 þegar við tókum upp neyðarnúmerið 112, sama neyðarnúmer og er í öðrum Evrópulöndum og gildir þá einu hvers konar neyð ber að höndum.“