Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2022 Innviðaráðuneytið

Starfshópur leggur fram tillögur til að mæta breyttum aðstæðum á póstmarkaði

Starfshópur, sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði í ágúst að ósk Alþingis um málefni póstþjónustu og alþjónustu í póstdreifingu hefur í nýrri skýrslu lagt fram fjórar megintillögur til að mæta breyttum aðstæðum á póstmarkaði á Íslandi. Markmið tillagnanna er að draga úr alþjónustubyrði ríkissjóðs um leið og allir landsmenn fái notið póstþjónustu á viðunandi verði. Meðal tillagna er að Byggðastofnun verði falið að endurskoða skilgreiningu virkra og óvirkra markaðssvæða og að skoða útboðsleið á póstmarkaði.

Alþingi samþykkti í fyrra breytingar (lög nr. 76/2021) á lögum um póstþjónustu en í bráðabirgðaákvæði breytingalaganna var ráðherra falið að skipa þverfaglegan starfshóp, m.a. til að greina tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu (alþjónustukostnað) og útfæra tillögur sem tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustu og greiði fyrir hana viðunandi verð. Starfshópurinn tók til starfa í ágúst og skilaði áfangaskýrslu í september. Lokaskýrsla hópsins hefur verið send umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til frekari skoðunar og umfjöllunar.

Tillögur starfshópsins

Í lokaorðum skýrslu starfshópsins segir að breytingar sé þörf og nauðsynlegt sé að aðlaga regluverk síbreytilegum kröfum. Þar segir m.a.: „Það er auðséð að með áframhaldandi samdrætti í alþjónustumagni og hækkandi aðfangakostnaði mun kostnaður á hverja einingu halda áfram að hækka… … Takmörk eru þó fyrir því hvað markaðurinn er reiðubúinn til að greiða fyrir alþjónustuna. Af þessu leiðir að til að viðhalda fjárhagslegri sjálfbærni alþjónustunnar þarf að aðlaga alþjónustukröfur, greiða með henni eða bæði.“

Starfshópurinn leggur til eftirfarandi fjórar tillögur í skýrslu sinni:

Könnun á þjónustuþörf landsmanna. Þjónustukönnun er ætlað að varpa ljósi á hvernig breyta megi alþjónustu þannig að dregið sé úr kostnaði hennar án verulegrar skerðingar á ábata neytenda um of. Einnig að veita grófa hugmynd um hvað telja má sem viðundandi eða viðráðanlegt verð. Undirbúningur að framkvæmd könnunarinnar er hafinn.

Endurskoðun á skilgreiningu virkra og óvirkra markaðssvæða með hliðsjón af samkeppni. Slíkri endurskilgreiningu er ætlað að jafna samkeppnisgrunn á markaði og draga úr kostnaði ríkissjóðs. Ráðuneytið fól Byggðastofnun að hefja þessu vinnu í byrjun nóvember. Byggðastofnun hefur skilað ráðuneytinu tillögum sínum og mun ráðuneytið birta niðurstöðurnar þegar ráðuneytið hefur farið yfir þær.

Nánari skoðun á útboðsmöguleika. Útboð dregur fram upplýsingar frá markaðnum, meðal annars um alþjónustukostnað, ýtir undir samkeppni um markaði, og getur lækkað alþjónustukostnað. Gerð er grein fyrir hugmyndum Ríkiskaupa vegna mögulegs útboðs í viðauka með skýrslunni.

Skoðun á skörun póstlaga og laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Slíkri skoðun er ætlað að auka á samkeppni og ýta undir að öll fyrirtæki sem sinna sambærilegri þjónustu búi við sambærilegan lagaramma. Unnið er að þessari skoðun í innviðaráðuneytinu.

Í skýrslunni segir þó að jafnvel þótt farið verði eftir tillögunum megi ekki ganga út frá því að allur kostnaður ríkissjóðs vegna alþjónustu falli niður. Að því gefnu að stjórnvöld vilji veita þjónustu umfram það sem markaðurinn leysir verða þau einnig að tryggja fjármögnun þess. 

Allar tillögurnar að einni undanskilinni eru enn í vinnslu en vonir standa til að þær muni gefa góða raun.

Nánar um starfshópinn

Í starfshópnum sátu Ísólfur Gylfi Pálmason, fulltrúi innviðaráðherra (þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra) en hann var formaður starfshópsins, Anna Guðrún Ragnarsdóttir, fulltrúi innviðaráðherra, sem jafnframt er verkefnisstjóri, Steinunn Sigvaldadóttir, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, Sigrún Ólafsdóttir, fulltrúi forsætisráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, fulltrúi landshlutasamtaka sveitarfélaga, Eyþór Björnsson, fulltrúi landshlutasamtaka sveitarfélaga, Snorri Björn Sigurðsson, fulltrúi Byggðastofnunar, Eva Ómarsdóttir, fulltrúi Samkeppniseftirlitsins, Benedikt S. Benediktsson, fulltrúi Samtaka verslunar og þjónustu, Árni Grétar Finnsson, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins og Breki Karlsson, fulltrúi Neytendasamtakanna. Með starfshópnum störfuðu einnig sérfræðingar í ráðuneytinu.

Í tengslum við vinnu starfshópsins funduðu formaður og verkefnastjóri með forsvarsfólki Íslandspósts, Póstdreifingar og Póstmarkaðarins, Dropps, innanlandssviðs Eimskipa, Samskipa innanlands, Samkeppniseftirlits, Fjarskiptastofu, Ríkiskaupa, Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu og Byggðastofnunar. Einnig var fundað með fyrrum forstjórum Íslandspósts.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta