Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar JEF ræddu stöðuna vegna Úkraínu

Varnarmálaráðherrar aðildarríkja JEF - myndUK Government
Alvarleg staða í öryggismálum Evrópu var meginefni fundar varnarmálaráðherra Sameiginlegu viðbragðsveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) sem fram fór í Bretlandi í dag og í gær.

Í yfirlýsingu ráðherranna tíu er fordæmd ákvörðun Rússlandsforseta um að viðurkenna sjálfstæði úkraínsku héraðanna Donetsk og Luhansk, í bága við alþjóðalög og Minsk-samkomulagið. Í yfirlýsingunni er ítrekaður stuðningur við fullveldi og friðhelgi landamæra Úkraínu og kallað eftir því að rússnesk stjórnvöld dragi úr spennu og taki aftur upp viðræður á viðeigandi vettvangi á borð við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og NATO-Rússlandsráðið.  

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði eftir fundinn að hljóðið hafi vissulega verið þungt í hópnum, en þar eiga aðild nokkur ríki með landamæri að Rússlandi sem búa nú við breyttan veruleika í öryggismálum. “Við þessar aðstæður er mikilvægt að við stöndum þétt við bakið á vinaþjóðum okkar og séum afgerandi í samstöðu okkar og stuðningi við þau. Það er lykilatriði að alþjóðalög, landamæri og lögsaga  séu virt í samskiptum milli ríkja,” segir utanríkisráðherra. 

JEF er samstarfsvettvangur tíu líkt þenkjandi Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum sem Bretland leiðir. Þátttaka Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi á þessu sviði í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands. 

Yfirlýsingu ráðherranna er að finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta