Ólafur Elíasson vinnur hugmyndavinnu fyrir minnisvarða um eldgosið í Heimaey
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 2 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til Vestmannaeyjabæjar vegna hugmyndavinnu fyrir minnisvarða um eldgosið í Heimaey. Gerður hefur verið samningur við Stúdíó Ólafs Elíassonar um hugmyndavinnuna.
Á næsta ári verða liðin 50 ár frá eldgosinu í Heimaey en gosið stóð frá 23. janúar til 3. júlí 1973. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, undirrituðu í september sl., viljayfirlýsingu um samvinnu og undirbúning viðburða í tilefni tímamótanna og er gerð minnisvarða þar á meðal.
Forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um skipun nefndar vegna undirbúnings kaupa og uppsetningu minnisvarðans. Í nefndinni munu auk fulltrúa forsætisráðherra verða skipaðir tveir fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og tveir fulltrúar Alþingis. Auk þess hefur bæjarráð og bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallað um viðburði í tengslum við þessi tímamót.
Ólafur Elíasson hefur þegar heimsótt Vestmannaeyjar til að skoða aðstæður en hann hafði það á orði að erlend grein um hraunkælinguna sem bjargaði innsiglingunni hafi vakið áhuga hans á verkefninu.
Auk gerðar minnisvarðans verður tímamótanna minnst með málstofu um eldgosið í Eyjum og gosið í Surtsey. Þá verður sumarfundur norrænu forsætisráðherranna haldinn í Vestmannaeyjum sumarið 2023, en myndarlegur stuðningur barst frá Norðurlöndunum vegna uppbyggingarinnar í kjölfar gossins, bæði í formi fjárframlags og með ýmsum öðrum hætti.