Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2022

Fundur Velferðarvaktarinnar 22. febrúar 2022

54. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

22. febrúar 2022 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N., Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir frá PEPP á Íslandi, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landsambandi eldri borgara, Elfa Dögg Leifsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Elísabet Linda Þórðardóttir frá dómsmálaráðuneytinu, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf Aron Gústafsson frá innviðaráðuneyti, Helga Sif Friðjónsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Ingvi Kristinn Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Lára Guðrún Magnúsdóttir frá Sjónarhóli, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, María I. Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólöf Helga Adolfsdóttir frá ASÍ, Salbjörg Bjarnadóttir frá embætti landlæknis, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir frá Heimili og skóla, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigrún Sigurðardóttir frá Geðhjálp, Sigurveig H. Sigurðardóttir frá félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Valgerður Þ. Bjarnadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Þórdís Viborg og Þuríður H. Sigurðardóttir frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

---

1. Forvarnir og vitundarvakning gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreitni

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, ávarpaði fundinn og sagði frá sínum helstu áherslum varðandi aðgerðir gegn ofbeldi í samfélaginu en meðal hans fyrstu verka sem ráðherra var að setja á stofn starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Ráðherra sagði einnig frá öðrum verkefnum sem verið er að vinna að á þessu sviði þ.m.t. aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi gegn börnum og ungmennum og sérstöku verkefni sem lýtur að því að þróa varanlegan stuðning við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Þá hefðu stjórnvöld aukið fjármagn til málaflokksins sem hefði skilað sér í auknum og markvissari aðgerðum gegn ofbeldi, ekki síst til almennrar vitundarvakningar í samfélaginu um ofbeldi. 

Ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, leiðir framangreindan starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreitni og sagði hún frá helstu verkefnum starfshópsins.

Sjá glærur.

2. Taktu skrefið – kynning

Anna Kristín Newton, sálfræðingur, kynnti Taktu skrefið sem er nýtt þjónustuúrræði fyrir fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Slíkt úrræði hefur ekki verið til staðar hér á landi, nema fyrir börn og ungmenni, en verkefnið er að breskri fyrirmynd og að baki því stendur teymi sálfræðinga sem búa yfir reynslu og þekkingu á þessu sviði. Inni á www.taktuskrefid.is er einnig að finna sjálfshjálpar- og fræðsluefni. Verkefnið er styrkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

3. Heimilisfriður – kynning

Andrés P. Ragnarsson, sálfræðingur, kynnti Heimilisfrið sem býður upp á sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir fólk sem beitt hefur maka sína ofbeldi. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á frekari ofbeldishegðun með því að veita fólki aðstoð við að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt á við ágreining og erfiðleika í samskiptum. Heimilisfriður hefur um árabil sérhæft sig í meðferðum fyrir gerendur ofbeldis og er áhersla lögð á að fólk hafi sjálft frumkvæði að því að leita sér aðstoðar, viðurkenni ábyrgð og sé tilbúið til þess að breyta hegðun sinni. Andrés sagði frá því að mikil ásókn hefði verið í þjónustu Heimilisfriðar undanfarin ár sem jókst enn frekar í heimsfaraldrinum.

4. Upplýsingasöfnun um bið barna eftir þjónustu tiltekinna aðila

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, kynnti nýtt verkefni sem lýtur að reglulegri upplýsingasöfnun umboðsmanns barna um bið barna eftir þjónustu hjá eftirfarandi aðilum: Barnahúsi, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Þroska- og hegðunarstöð, Ráðgjafar- og greiningarstöð og BUGL. Markmiðið er að hafa yfirsýn yfir stöðuna á einum stað en gert er ráð fyrir að embættið kalli eftir þessari tölfræði og birti tvisvar á ári.

5. Örkynningar úr baklandinu

  • Heimili og skóli. Sigrún Edda Eðvarðsdóttir kynnti starfsemi samtakanna en þau veita ráðgjöf og stuðning til foreldra og foreldrasamtaka um allt land og gefa m.a. út fjölbreytt fræðsluefni til stuðnings við foreldra. Heimili og skóli reka einnig SAFT netöryggisverkefnið en SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni og er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.

     

  • Samband íslenskra sveitarfélaga. María Ingibjörg Kristjánsdóttir sagði frá helstu verkefnum sambandsins um þessar mundir. Sambandið vinnur einkum að eflingu íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Um þessar mundir eru sveitarfélög enn að glíma við ýmsar áskoranir vegna Covid-19 faraldursins. Má þar t.d. nefna mönnunarvanda sem verið hefur víða s.s. á sambýlum og hjúkrunarheimilum. Þá er verið að vinna að ýmsum öðrum verkefnum þ.m.t. stefnumörkun til 4 ára og einnig er stórt skólaþing framundan þar sem farið verður sérstaklega yfir hvernig til hefur tekist síðustu 25 ár þegar grunnskólar voru færðir frá ríki til sveitarfélaga.

6. Önnur mál

  • Formaður sagði frá rannsókn, sem nú er í undirbúningi hjá Félagsvísindastofnun, á stöðu barnafjölskyldna sem deila ekki saman lögheimili.
  • Skýrsla um brotthvarf verður kynnt á málþingi á Grand hóteli 15. mars. Gert er ráð fyrir pallborði þar sem viðbrögð við skýrslunni verða rædd.
  • Næsti fundur verður haldinn 5. apríl á Teams.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta