Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Áframhaldandi samstöðuaðgerðir

Íslensk stjórnvöld ákváðu í dag að loka íslenskri lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara og afnema einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila til að sýna samstöðu með Úkraínu.

„Rétt eins og aðrar vina- og bandalagsþjóðir erum við einhuga í samstöðu með úkraínsku þjóðinni og skorumst ekki undan þátttöku í þeim aðgerðum sem gripið verður til vegna ólögmætra hernaðaraðgerða Rússlands gegn Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Réttindin um vegabréfsáritanir til ákveðinna hópa, og hafa nú verið afnumin, byggja á tvíhliða samningi um liprun áritunarmála á milli Íslands og Rússlands frá árinu 2008. Þetta er gert til samræmis við aðgerðir Evrópusambandsins og ríkja á Schengen svæðinu. Almennar áritunarreglur og umsóknarferli mun því gilda fyrir alla rússneska ríkisborgara hér eftir. Ákvörðunin var tilkynnt rússneska sendiherranum sem kallaður var á fund í utanríkisráðuneyti í dag. 

Ákvörðunin um að loka íslenskri lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara meinar flugvélum sem eru í eigu eða leigu rússneskra aðila um aðgang, brottför og/eða gegnumför um íslenska lofthelgi. Það sama gildir um flugrekendur sem starfa á grundvelli leyfa sem gefin eru út af rússneskum yfirvöldum. Íslensk lofthelgi nær yfir um það bil 75.000 ferkílómetra svæði sem afmarkast af línu sem er alls staðar 12 sjómílur frá svonefndum grunnlínum sem dregnar eru í kringum Ísland, samanber mynd sem fylgir til skýringar. Rétt er að nefna að íslenskt flugstjórnarsvæði er umtalsvert stærra en íslensk lofthelgi en stjórnvöld hafa ekki heimildir að þjóðarétti til að takmarka umferð um flugstjórnarsvæðið heldur einungis í lofthelginni.

Þessar ákvarðanir koma til viðbótar við þær þvingunaraðgerðir Evrópuríkja sem Ísland hefur þegar lýst yfir þátttöku í og þær sem búist er við að samþykktar verði á vettvangi ESB í dag.

 
  • Áframhaldandi samstöðuaðgerðir  - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta