Þarf ákveðin skref nú í baráttunni gegn plastmengun
Heimsbyggðin þarf að taka ákveðin skref í baráttunni gegn plastmengun í höfunum og hrinda af stað viðræðum um gerð alþjóðasamnings í því skyni, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku og loftslagsráðherra í ávarpi sínu á 5. Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí í Kenía.
„Höfin eru að fyllast af plastrusli og örplasti. Enginn hluti okkar bláu plánetu er þar undanskilinn,“ sagði ráðherra. Hann nefndi að í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu hefði verið haldin alþjóðleg ráðstefnu um plastmengun á Norðurslóðum, þar sem glöggt hafi komið fram að hún væri til staðar þar og færi vaxandi, langt frá uppsprettum mengunarinnar. „Norðurslóðir hafa hringt viðvörunarbjöllu. Við þurfum að hlusta. Við þurfum að bregðast við.“
Ráðherra hvatti til þess að væntanlegur samningur taki ekki einungis á meðferð plastúrgangs, heldur á öllum lífsferli plasts. Hann benti á að alþjóðlegir samningar um m.a. þrávirk lífræn efni og kvikasilfur hefðu hjálpað heimsbyggðinni við að ná tökum á mengun af völdum þeirra efna og snúa neikvæðri þróun við. Hið sama þurfi að gera varðandi plastmengun.
Guðlaugur Þór hvatti til aðgerða gegn loftslagsbreytingum og til verndar líffræðilegrar fjölbreytni. Sumar aðgerðir geti þjónað báðum þessum markmiðum, s.s. skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis og rétt að setja þær í forgang. Ráðherra sagði frá hertum markmiðum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og hvatti til hreinna orkuskipta á heimsvísu, sem væri forgangsmál í baráttunni gegn loftslagsvá. Ísland hafi þar þekkingu og reynslu að bjóða, ekki síst á sviði jarðhita.
Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna fer nú fram í fimmta sinn, en það er Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNEP, sem heldur þingin. Þingið fer fram í Naíróbí í Kenía, en einnig er boðið upp á rafræna þátttöku. Fjölmargar ályktanir liggja fyrir þinginu, en sú mikilvægasta að þessu sinni lýtur að því að boða til alþjóðlegra viðræðna um gerð lagalega bindandi samnings gegn plastmengun. Ísland og hin Norðurlöndin hafa verið í hópi ríkja sem kalla eftir gerð slíks samnings og hafa Norðurlöndin m.a. sameiginlega gert skýrslu um hvernig slíkur samningur gæti orðið og hvernig ákvæði hans gætu best dugað til að stuðla að ábyrgari framleiðslu og notkun á plasti og minni mengun af völdum plastúrgangs, en stór hluti hans endar í höfunum.