Lokar skápnum fyrir veiðar með botnvörpu
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem bannar veiðar með fiskibotnvörpu á svæði innan 12 sjómílna í svokölluðum „skáp“ út af Glettninganesi. Lokunin gildir frá júlí og fram í desember ár hvertog tekur til þess að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á umræddu svæði milli 6 og 12 mílna út af Glettingarnesi, þ.e.a.s syðsta hluta Skápsins.
Matvælaráðuneytið aflaði gagna frá Fiskistofu vegna ákvörðunarinnar sem sýna að með lokuninni má búast við að afli línu og handfærabáta aukist umtalsvert en að lokunin hafi lítil sem engin neikvæð áhrif á aflabrögð þeirra togbáta sem stunda veiðar á svæðinu. Þá hafði ráðuneytið fengið erindi frá heimastjórn Borgarfjarðar eystra þar sem þess var farið á leit að mörkuð yrði stefna um lokun á veiðum með fiskibotnvörpu á svæðinu.
Reglugerðin verður birt á vefnum www.reglugerd.is á næstunni.