Mikilvægt mat á stöðu þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga
Efni sjöttu skýrslu milliríkjanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC) á skýrt erindi við Ísland. Þetta kom fram í kynningu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skýrslunni á ríkisstjórnarfundi í morgun. Skýrslan kom út í gær og er Veðurstofa Íslands, sem er tengiliður Íslands við IPCC, að láta þýða með styrk frá umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytinu inntak hennar með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert.
Um er að ræða annan hluta sjöttu skýrslu IPCC og er þar fjallað um áhrif loftslagsbreytinga, aðlögun og tjónnæmi. Þar er m.a. lagt mat á stöðu vísindalegrar þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi, samfélög manna, borgir, byggðir, þjónustur, innviði og atvinnuvegi. Eins er þar gerð grein fyrir samspili loftslags, líffræðilegs fjölbreytileika, umhverfis og samfélaga manna. Auk þess sem þar er gætt að samþættingu náttúru, umhverfis-, félags-, og hagfræða á ítarlegri hátt en fyrri matsskýrslur IPCC hafa gert.
Tillaga að kvóti: „Það er mikilvægt að fá þetta mat á stöðu vísindalegrar þekkingar á loftslagsbreytingum með tilliti til áhrifa á samfélög og vistkerfi, aðlögun þeirra og tjónnæmi. Ráðuneytið, Vísindanefnd um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofunni, koma til með að skoða vel hvaða breytingar eru á áherslum í þessari nýju matsskýrslu og taka það inn í stefnumótun, ákvarðanatöku og aðgerðir til að auka viðnámsþrótt og samstöðu gagnvart loftslagsvá,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að breytingar á vatnafari vegna hopunar jökla, og breytingar á vistkerfum til fjalla og á norðurskauti vegna þiðnunar sífrera séu á barmi þess að vera óafturkræfar.
Þá munu áhrif á kerfi frera, stranda og lífríkis aukast á meðan hækkun hitastigs stefnir yfir 1,5°C. Mörg þessara áhrifa munu verða óafturkræf til framtíðar.
Þá mun hækkandi sjávarstaða, svo og þurrkar, hitabylgjur, gróðureldar og flóð spilla vatnsforða, vistkerfum og endurvakningu vistkerfa á mörgum svæðum.
Í skýrslunni segir jafnframt að merkjanlegar framfarir og aukning eru í skipulagi og framkvæmd aðlögunar í heiminum. Aukin vitund almennings og stjórnmálamanna um áhrif loftslagsbreytinga og áhættu sem þeim fylgja, hafi orðið til þess að a.m.k. 170 lönd hafa sett aðlögun inn í loftslagsstefnu sína og margar borgir horfa nú sérstaklega til loftslagsbreytinga þegar kemur að skipulagsmálum.
Í því samhengi má nefna að Ísland býr að aðlögunarstefnu sem var gefin út haustið 2021 og stjórnvöld undirbúa nú gerð fyrstu íslensku áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Skýrslan undirstrikar að margir möguleikar til aðlögunar séu til staðar og að þeir séu notaðir til að taka á fyrirsjáanlegum áhrifum loftslagsbreytinga, en að framkvæmd þeirra sé háð getu og skilvirkni stjórnvalda og ákvarðanatökuferla.
Gert er ráð fyrir að Vísindanefnd um áhrif loftslagsbreytinga, sem leidd er af Veðurstofu Íslands taki mið af niðurstöðum þessarar sjöttu skýrslu milliríkjanefndar S.þ. og hafi hana til hliðsjónar við gerð næstu íslensku skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga, en vinnu við hana á að ljúka árið 2023.