Rússlandi meinuð þátttaka í starfsemi Eystrasaltsráðsins
Utanríkisráðherrar aðildarríkja Eystrasaltsráðsins (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) og háttsettur fulltrúi ESB á sviði utanríkismála hafa samþykkt sameiginlega yfirlýsingu þar sem tekin er ákvörðun um að meina Rússlandi þátttöku í allri starfsemi Eystrasaltsráðsins þar til annað verður ákveðið. Sama gildir um Belarús sem er áheyrnaraðili að ráðinu. Í yfirlýsingunni lýsa ráðherrar aðildarríkjanna og háttsettur fulltrúi ESB á sviði utanríkismála yfir samstöðu og algjörum stuðningi við Úkraínu. Þá er innrás Rússlands í Úkraínu harðlega fordæmd sem og aðstoð Belarús við innrásina.
Eystrasaltsráðið sem hefur aðsetur í Stokkhólmi hefur víðtækt verkefnasvið og innan þess fer fram margþætt efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali, nýsköpun, sjálfbæra þróun og stjórnmálalegt samstarf.
Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Rússland, auk Evrópusambandsins.