Utanríkisráðherra lýsti áhyggjum af mannréttindum í Úkraínu vegna innrásar Rússa
Stuðningur íslenskra stjórnvalda við úkraínsku þjóðina var ítrekaður og innrás Rússlands harðlega fordæmd í myndbandsávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna. Tveggja daga sérstakri umræðu sem fram fór í ráðinu um stöðu mannréttinda í Úkraínu lauk í dag.
„Rússland hefur valið leið stríðs og tortímingar og er innrásin í Úkraínu ein alvarlegasta ógn við frið og öryggi Evrópu og heim allan,“ sagði utanríkisráðherra í ávarpi sínu. “Undirrót stríðsrekstrar Rússa er að grafa undan þeim gildum sem við höfum lengi unnið ötullega að – umburðarlyndi, frið og mannréttindum – sem mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur jafnframt umboð til að standa vörð um og vernda.“
Addressed the #UrgentDebate of the @UN_HRC on the situation of human rights in #Ukraine stemming from the Russian aggression: "We stand in full unity with 🇺🇦 & call on Russia to stop this senseless war & immediately withdraw all its forces from Ukraine” https://t.co/5JRcgjVEJH pic.twitter.com/DXHrI17bFt
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) March 3, 2022
Þá lýsti utanríkisráðherra áhyggjum af afleiðingum innrásar Rússlands á mannréttindi úkraínskra borgara og því mannfalli sem orðið hefur. Hundruð þúsunda væru nú þegar á flótta. Tryggja þyrfti nauðsynlega mannúðaraðstoð og virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum.
Í morgun samþykkti ráðið harðorða ályktun um aðgerðir Rússlands í Úkraínu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Í ályktuninni er innrás Rússlands í Úkraínu fordæmd og þess krafist að Rússar hverfi tafarlaust frá Úkraínu með herlið sitt. Þá kveður ályktunin á um að stofnuð verði sérstök rannsóknarnefnd sem safnar og greinir gögn um mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum sem framin hafa verið af hálfu Rússlands í Úkraínu. Ísland var meðflytjandi ályktunarinnar og hefur fastanefnd Íslands í Genf tekið virkan þátt í samningaviðræðum um hana undanfarna daga.