Skipar sérstakt aðgerðarteymi vegna komu flóttafólks frá Úkraínu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mun skipa sérstakt aðgerðarteymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu og mun teymið fara með yfirstjórn aðgerða og vinna að skipulagningu á móttöku flóttafólks frá landinu. Í hópnum verða fulltrúar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, mennta- og barnamálaráðuneytinu, innviðaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Þá verður óskað eftir fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þátttöku í teyminu og að fulltrúi flóttamannanefndar eigi þar einnig sæti. Stofnanir ráðuneytisins munu taka þátt í starfinu eftir þörfum.
Hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ráðið Gylfa Þór Þorsteinsson, forstöðumann farsóttarhúsanna, sem aðgerðarstjóra teymisins til að leiða þau verkefni sem við blasa og tengja saman stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki sem lagt geta málinu lið.
Ráðgert er að opna síðar í dag sameiginlega rafræna gátt fyrir tilboð um aðstoð sem berast víða að svo tryggja megi yfirsýn og meta þörf og eftirspurn. Sérstaklega á það við um tilboð um húsnæði fyrir flóttafólkið til skemmri eða lengri tíma.