Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi ræddar á málstofu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna
Samningsskuldbindingar Íslands vegna Istanbúl-samningsins, með sérstakri áherslu á stafrænt kynferðisofbeldi og þátttöku karla og drengja í forvarnarstarfi gegn kynbundnu ofbeldi, voru til umræðu á málstofu sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í dag.
Málstofan var liður í fundaröð sem haldin er í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu, en hún hefst í nóvember 2022 og lýkur í maí 2023. Fundaröðin fjallar um málefnasvið Evrópuráðsins; mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, en jafnréttismál skipa jafnframt mikilvægan sess í formennskuáætlun Íslands í ráðinu. Í opnunarávarpi gerði Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Evrópuráðinu, grein fyrir þessum áherslum og þeirri vinnu á sviði jafnréttismála sem fer fram á vettvangi Evrópuráðsins.
Dr. María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri stafræns ofbeldis hjá embætti Ríkislögreglustjóra, stýrði fundinum og fjallaði um nýsamþykktar breytingar á almennum hegningarlögum sem varða kynferðislega friðhelgi. Hildur Sunna Pálmadóttir, lögfræðingur og sérfræðingur dómsmálaráðuneytisins í málaflokknum, talaði um framkvæmd og eftirfylgni Istanbúl-samningsins og framtíð hans hér á landi. Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, nálgaðist málið frá sjónarhorni lögreglunnar og ræddi um umbætur lögreglu á rannsókn mála er varða heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu fór yfir framfylgd þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021-2025. Þórður Kristinsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands sem rannsakar kynjaða samfélagsmiðlanotkun unglinga, fjallaði um kynlífsmenningu ungra karla, óheft aðgengi að kámefni og hvernig beina megi félagslegri kynfræðslu sem lið í forvarnarstarfi meðal drengja.
Líflegar umræður sköpuðust í kjölfarið enda ljóst að Istanbúl-samningurinn spilar mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að bæta lagaumhverfi kynferðisbrota hér á landi.