Frumvarp um íbúakosningar sveitarfélaga í samráðsgátt
Drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum vegna íbúakosninga sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 15. mars nk.
Megintilgangur frumvarpsins er annars vegar að einfalda og skýra reglur sem gilda um íbúakosningar sveitarfélaga og hins vegarað rýmka og lögfesta varanlega heimildir sveitarfélaga til að halda íbúakosningar með rafrænum hætti. Í frumvarpinu eru einnig gerðar smávægilegar breytingar á hinu lögbundna ferli, sem fylgja þarf þegar kemur að sameiningu sveitarfélaga.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er í eftirtöldum þremur tilvikum gert ráð fyrir íbúakosningum:
- Kosningar um skipan nefndar samkvæmt 38. gr.
- Kosningar um einstök málefni samkvæmt 107. gr.
- Kosningar um sameiningu sveitarfélaga samkvæmt 125. gr.
Í samráðsgátt segir um frumvarpið að fengin reynsla hafi leitt það í ljós að þær reglur sem nú gilda um íbúakosningar mættu vera skýrari. Jafnframt að kröfur, sem gerðar væru til íbúakosninga á grundvelli núgildandi sveitarstjórnarlaga, kunni að vera óþarflega miklar, sem hafi leitt til þess að sveitarfélög nýti sér ekki úrræði sem sveitarstjórnarlögin bjóða til þess að kanna vilja íbúa.