Hoppa yfir valmynd
10. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Drög að stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Gildi sem þátttakendur á geðheilbrigðisþingi 2020 töldu mikilvæg leiðarljós þegar rætt var um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum - myndHeilbrigðisráðuneytið

Birt hafa verið til umsagnar drög að þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Umsagnarfrestur er til 22. mars. Heilbrigðisráðherra hefur skipað samráðshóp til að setja fram aðgerðaáætlun um framkvæmd stefnunnar og verður hún fylgiskjal með þingsályktunartillögunni þegar hún verður lögð fyrir Alþingi. Formaður hópsins er Páll Matthíasson, doktor í geðlækningum. 

Líkt og aðrar stefnur og aðgerðaáætlanir sem mótaðar hafa verið frá árinu 2019 taka drög að þingsályktunartillögu ráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum mið af ályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Því er jafnt lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. 

Straumar og stefnur í geðheilbrigðismálum á alþjóðavísu draga fram að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóða að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir framfarir í geðheilbrigðismálum á liðnum árum standa Íslendingar frammi fyrir ýmsum áskorunum og hindrunum sem ryðja þarf úr vegi til að ná árangursríkum framförum. Um þetta er fjallað í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem hér er  birt til umsagnar. Tillagan sjálf byggist á fjórum áhersluþáttum sem eru eftirfarandi: 

  • Geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
  • Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegri gagnreyndri meðferð og endurhæfingu. Þá verði þjónustan veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
  • Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
  • Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.

Til að hrinda í framkvæmd stefnu um geðheilbrigðismál til ársins 2030 er í þingsályktunartillögunni miðað við að gerðar verði aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn í samráði við hagsmunaaðila og að þær verði jafnframt uppfærðar árlega.

Eins og áður segir hefur heilbrigðisráðherra skipað samráðshóp til að móta aðgerðaáætlun um framkvæmd stefnu í geðheilbrigðismálum og verður hún fylgiskjal með þingsályktunartillögunni þegar hún verður lögð fram á Alþingi. Hlutverk hópsins verður jafnframt að fylgja eftir framkvæmdinni.

Samráðshópurinn er þannig skipaður:

Páll Matthíasson, doktor í geðlækningum, formaður hópsins
Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum í Háskóla Íslands
Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu LSH
Liv Anna Gunnell, sviðstjóri sálfræðiþjónustu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu
Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar
Sigríður Gísladóttir, aðstandandi 
Sigurlín H. Kjartansdóttir, sálfræðingur, frá Heilbrigðisstofnun Austurlands
Guðlaug U. Þorsteinsdóttir, frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Gígja Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur frá Vinafélaginu, áhugafólk um nýja hugsun í geðheilbrigðismálum á Íslandi
Gísli Kort Kristófersson, dósent í hjúkrunarfræði, Háskólanum á Akureyri
Anna Birgit Ómarsdóttir, frá heilbrigðisráðuneytinu
Helga Sif Friðjónsdóttir, frá heilbrigðisráðuneytinu
Ingibjörg Sveinsdóttir, frá heilbrigðisráðuneytinu

Þingsályktunartillagan til umsagnar í samráðsgátt 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta