Hoppa yfir valmynd
11. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þurfum að efla vernd lífríkis, hafs og loftslags

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Margt hefur áunnist á hálfri öld í umhverfisvernd í heiminum, en nauðsynlegt er að efla aðgerðir til muna til að mæta áskorunum, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi á viðburði Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí í Kenía í lok síðustu viku. Ávarpið var flutt á sérstökum viðburði í tilefni 50 ára afmælis Umhverfisstofnunar S.þ. (UNEP), þar sem ráðherrar voru beðnir um að meta árangur starfsins til þessa og nefna helstu áskoranir fram undan.

Guðlaugur Þór sagði að UNEP hefði í starfi sínu tekist að vinna margvíslegt gagn í umhverfisvernd, ekki síst með því að tengja saman umhverfismál og efnahagslega og félagslega þróun. „Þetta eru ekki andstæður – til þess að bæta hag mannkyns þurfum við að nýta gjafir náttúrunnar af skynsemi og taka mark á hættumerkjum um ástand Jarðar.“

Ráðherra benti á árangur sem hefði náðst við að stöðva eyðingu ósonlagsins og draga úr mengun hafanna af völdum þrávirkra lífrænna efna. Mikið mætti læra af slíkum dæmum, s.s. varðandi nauðsyn á góðri vísindaþekkingu, skýrum markmiðum og víðtækri samvinnu. Ríkisstjórnir þurfi að setja markmið og vera leiðandi, en nauðsynlegt sé líka að virkja einkageirann, sem leggi til skapandi þekkingu og framkvæmdakraft. Konur þurfi enn fremur að hafa sama rétt og karlar, svo þær geti beitt sér af fullum krafti í umhverfisvernd.

Varðandi helstu áskoranir fram undan nefndi Guðlaugur Þór loftslagsvána, auk verndar lífríkisins og hafanna. Nauðsynlegt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og notkun jarðefnaeldsneytis og nota í staðinn hreina og endurnýjanlega orku. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni sé nauðsynleg, ekki síst í föngun og niðurdælingu kolefnis; Ísland vinni að slíkum verkefnum en nauðsynlegt sé að efla slíkar aðgerðir á heimsvísu.

Stöðva þurfi eyðingu verðmætra vistkerfa og endurheimta þau sem séu sködduð eða eydd, þar á meðal skóga og votlendi. Einnig þurfi að vernda höfin og nýta auðlindir þeirra á sjálfbæran hátt. Sagði ráðherra væntanlegan nýjan alþjóðasamning um plastmengun vera mikilvægt skref í þá átt, en að einnig þurfi að draga úr og stöðva súrnun hafsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta