Hoppa yfir valmynd
11. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra heimsótti öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Timothy Campbell, stjórnanda í bandaríska sjóhernum. - mynd

Heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á öryggissvæðið í Keflavík fór fram nýverið. Þórdís Kolbrún hitti fulltrúa portúgalska flughersins sem annast hefur loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins undanfarnar vikur, liðsmenn bandaríska sjóhersins sem sinna hér kafbátaeftirliti og starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem hafa með höndum varnartengd rekstrarverkefni í umboði utanríkisráðuneytisins.

Ráðherra kynnti sér þær breytingar og endurbætur sem hafa verið gerðar á flugskýli 831, ávarpaði þar viðstadda og áréttaði staðfestu Íslands sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og mikilvægi varnarsamningsins við Bandaríkin.

„Virðing fyrir alþjóðalögum skiptir smáríki eins og Íslandi höfuðmáli. Við getum ekki staðið aðgerðalaus þegar þau eru brotin á jafn blygðunarlausan hátt af stórveldi á borð við Rússland. Á þeim óróatímum sem við lifum nú finn ég greinilega fyrir því að fleiri leiða hugann að varnarmálum,“ sagði utanríkisráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Þórdís Kolbrún kynnti sér sömuleiðis ýmsar endurbætur sem ráðist hefur verið í á öryggisvæðinu, þar á meðal nýja þvottastöð fyrir flugvélar, endurbætur á flugbrautum, -hlöðum og akstursbrautum, byggingaframkvæmdir við viðbótargistirými á svæðinu, og kerfisuppfærslur á hugbúnaði í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu.

  • Utanríkisráðherra heimsótti öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli  - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta