Málþing forsætisráðuneytisins í samstarfi við UN Women á Íslandi vegna 66. Kvennanefndarfundar SÞ
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í dag í rafrænum hliðarviðburði forsætisráðuneytisins í samstarfi við UN Women á Íslandi í tengslum við 66. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW66). Á málþinginu var rætt með hvaða hætti loftslagsbreytingar auka líkurnar á vopnuðum átökum innan ríkja og áhrif þeirra á konur og stúlkur.
Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra mikilvægi þátttöku kvenna í ákvarðanatöku þegar kemur að loftslagsmálum. Þá ræddi hún einnig afleiðingar stríðsátaka fyrir konur og börn: „Þegar áföll dynja á samfélögum eins og náttúruhamfarir eða stríðsátök þá eru afleiðingarnar oft þær að konur eru berskjaldaðri fyrir ofbeldi, meðal annars vegna þess að þær hrekjast á flótta. Við erum að sjá þetta gerast í Úkraínu þar sem fjöldi fólks er á flótta og konur og stúlkur eru í sérstaklega mikilli hættu vegna hernaðaraðgerða rússneskra stjórnvalda sem eru árásir á saklaust fólk.“
Meðal þátttakenda voru auk forsætisráðherra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem opnaði viðburðinn, Christina Lamb, fréttastjóri erlendra frétta hjá The Sunday Times og rithöfundur, Erna Huld Íbrahimsdóttir, þýðandi, túlkur og kynjafræðingur og Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna. Fundarstjóri var Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur og varaformaður stjórnar UN Women á Íslandi.
Um viðburðinn:
Forsætisráðuneytið í samstarfi við UN Women á Íslandi stóðu fyrir málþinginu í tengslum við 66. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna. Breski fréttaritarinn og rithöfundurinn Christina Lamb fjallar um í bók sinni Líkami okkar, þeirra vígvöllur, að kynferðisofbeldi og nauðgunum mun verða beitt í auknum mæli sem vopni í stríðsátökum. Þó nauðganir á stríðstímum séu skilgreindar sem stríðsglæpur, heyrir það til undantekninga að gerendur séu dregnir til saka fyrir glæpi sína.