Hoppa yfir valmynd
15. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarpi um beitingu nauðungar vísað í samráðshóp

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verða við kalli Alþingis um aukið samráð við áformaðar breytingar á lögum um réttindi sjúklinga varðandi beitingu nauðungar. Að ósk hans hefur frumvarpið því verið tekið af dagskrá þingsins og mun hann setja á fót samráðshóp til að fjalla nánar um afstöðu notendahópa til málsins og mögulegar breytingar á frumvarpinu.

Eftirtöldum aðilum verður meðal annarra boðið að tilnefna fulltrúa í samráðshópinn:

  • Geðhjálp
  • Hugarafli
  • Landsambandi eldri borgara
  • Þroskahjálp
  • Öryrkjabandalaginu

Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi á síðasta löggjafarþingi vegna athugasemda sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsókna á lokaðar deildir geðsviðs Landspítala haustið 2018 á grundvelli svokallaðs OPCAT-eftirlits. Einnig var með frumvarpinu brugðist við athugasemdum frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum sem hefur ítrekað bent á skort á skýrum lagaramma er viðkemur beitingu hvers kyns nauðungar á heilbrigðisstofnunum hér á landi, ekki síst til að draga úr hættunni á beitingu ómannúðlegrar meðferðar.

Frumvarpið var tekið til umfjöllunar í velferðarnefnd en náði ekki fram að ganga. Velferðarnefnd lagði til nokkrar breytingar á frumvarpinu og var því breytt til samræmis við þær og lagt fram á Alþingi nú á vorþingi. Hefðbundið samráð var viðhaft við undirbúning frumvarpsins, og var það almennt mat þeirra sem tóku þátt í samráðsferli um það og skiluðu inn umsögnum að frumvarpið feli í sér mikilvæga réttarbót fyrir sjúklinga með skýrari lagaumgjörð um hvaða skilyrði m.a. varðandi verklag, skráningu og eftirlit þurfi að uppfylla ef ekki verður hjá því komist að beita þvingaðri meðferð í heilbrigðisþjónustu.

Ljóst er að frumvarp til breytinga á lögum um sjúklinga sem lýtur að nauðung verður ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en næsta haust, að undangengnu því samráðsferli sem ráðherra hefur nú ákveðið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta