Góður upplýsingafundur vegna flóttafólks frá Úkraínu
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fundaði í morgun með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna, ásamt félagsmálastjórum víðsvegar um landið vegna skipulags á komu flóttafólks frá Úkraínu. Aðalefni fundarins var að ræða stöðu þeirra einstaklinga sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín til nágrannaríkja í kjölfar innrásar Rússlands í landið og hvernig best er að haga móttöku þeirra hér á landi. Fundurinn hafði einnig þann tilgang að fylgja eftir áskorun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins frá í síðustu viku þar sem sveitarfélögin í landinu voru hvött til þess að leggja móttöku flóttafólksins lið eftir getu og möguleikum.
Margar áskoranir blasa við velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga, skólaþjónustu og stuðningskerfum af flestu tagi ef spár um fjölda þeirra sem flýja til Íslands rætist. Afar mikilvægt er því að miðla upplýsingum til allra sem málið varðar og að þær séu aðgengilegar.
Fundurinn í morgun var vel sóttur og áttu sér stað góðar og uppbyggilegar umræður um hvernig þessir aðilar geta tekið höndum saman til þess að taka sem best á móti flóttafólki frá Úkraínu.