Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tilkynnti um stuðning Íslands við Jemen

Vannæring ungbarna er óvíða meiri í heiminum en í Jemen - myndUNOCHA/Giles Clarke

Framlagsráðstefna til að tryggja lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð fyrir almenna borgara Jemen var haldin í dag. Á slíkum ráðstefnum tilkynnir forsvarsfólk ríkja um viðbrögð við ákalli um neyðaraðstoð í tengslum við tiltekin verkefni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti að heildarframlög Íslands til stuðnings Jemen muni á þessu ári nema 125 milljónum króna.

„Ástandið í Jemen versnar dag frá degi. Mikilvægt er að unnt sé að skipuleggja mannúðarstarf með sem bestum hætti og er fyrirsjáanleiki í fjárframlögum mikilvægur þáttur í því. Þörfin á mannúðaraðstoð vex mjög og það er skylda okkar að leggja enn meira af mörkum til að aðstoða þau sem búa við sára neyð,“ segir Þórdís Kolbrún.

Ráðstefnan, sem skipulögð var af Svíþjóð og Sviss í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, hefur verið haldin ár hvert frá því að stríðið í Jemen braust út fyrir um sjö árum. Rúmlega tuttugu milljónir manna eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð og innviðir landsins eru fyrir löngu að hruni komnir.

Framlag Íslands skiptist milli áherslustofnanna í mannúðaraðstoð: Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Aðeins náðist að safna tæplega 60 prósentum af samþættu mannúðarákalli Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen (Yemen Humanitarian Response Plan) fyrir árið 2021 og óttast stofnunin mjög að sagan endurtaki sig fyrir árið 2022. Hafa Sameinuðu þjóðirnar kallað eftir fyrirsjáanlegu og sveigjanlegu fjármagni til aðgerða.

Ávarp utanríkisráðherra á framlagaráðstefnunni

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta