Ráðuneytið í öðru sæti í Stofnun ársins
Fjármála- og efnahagsráðuneytið varð í öðru sæti í flokki stórra stofnana í Stofnun ársins 2021, en niðurstöður voru kynntar á hátíð Sameykis í gær. Aðeins Náttúrulækningastofnunin í Hveragerði varð ofar og varð hlutskörpust í þessum flokki. Ráðuneytið hækkar verulega milli ára en í fyrra varð það í 22. sæti í sama flokki, en alls eru 50 stofnanir í honum. Stofnun ársins er valin út frá starfsánægjukönnun, sem mælir ánægju og vellíðan í starfi. Undanfarin misseri hafa verið krefjandi fyrir starfsfólk ráðuneytisins, sem hefur tekist á við mörg óvanaleg viðfangsefni og aðstæður og því eru niðurstöðurnar sérstaklega ánægjulegar.
Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Valið fer þannig fram að valin er stofnun með hæstu heildareinkunn sem uppfyllir þátttökuskilyrði úr þremur stærðarflokkum og bera þessar þrjár stofnanir heitið „Stofnun ársins.“ Stærðarflokkarnir eru; stofnanir með færri en 40 starfsmenn, stofnanir með 40-89 starfsmenn og stofnanir með 90 eða fleiri starfsmenn.
Ríkiskaup hlutu sérstaka viðurkenningu sem „Hástökkvari ársins“ en hana hlýtur sú stofnun sem bætt hefur starfskjör starfsmanna mest á milli kannana. Við útreikning á hástökkvurum er fyrst reiknuð raðeinkunn fyrir allar stofnanir á bilinu 1-100 og þá er reiknaður munur á raðeinkunn milli ára. Ríkiskaup hækkar mest frá síðasta ári, eða um 68 sæti.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Hlutverk okkar í ráðuneytinu er fyrst og fremst að vinna fyrir allt fólkið úti í samfélaginu og létta því lífið. Það segir sig sjálft að við náum bestum árangri í því á samheldnum vinnustað þar sem fólki líður vel í vinnunni.
Síðustu tvö ár hafa verið krefjandi, bæði hvað varðar verkefni og aðstæður. Þess vegna er þessi niðurstaða sérstaklega ánægjuleg. Hún rímar hins vegar vel við andann í kringum allt það góða og öfluga fólk sem hér starfar.“