Samnorræn skuldbinding um loftslagsbreytingar og jafnrétti kynja
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirritaði fyrir hönd Íslands samnorræna skuldbindingu um loftslagsbreytingar og jafnrétti kynja á fundi norrænu jafnréttisráðherranna sem haldinn var í tengslum við þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Skuldbindingin gengur út á að samþætta jafnréttissjónarmið við stefnumótun og aðgerðir í loftslagsmálum með markvissum hætti.
Með sameiginlegri skuldbindingu á vettvangi verkefnisins Kynslóð jafnréttis sameina Norðurlöndin krafta sína um málaflokkana loftslagsbreytingar og jafnrétti kynjanna. Í jafnréttismálum vinna Norðurlöndin út frá þeirri meginsýn að flétta jafnréttismál í alla málaflokka og samþætta sjónarmið jafnréttis í alla stefnumótun. Eins ættu loftslagsaðgerðir að hafa það að leiðarljósi að sjónarmið allra kynja séu tekin með og að aðgerðir séu metnar út frá jafnréttissjónarmiðum og að því verður stefnt samkvæmt skuldbindingunni sem undirrituð var í dag. Á næsta ári fer Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og verður haldið áfram á þeim vettvangi að byggja upp sjálfbærni á Norðurlöndum þar sem jafnrétti kynjanna er haft að leiðarljósi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Með þessari skuldbindingu erum við að segja að við ætlum að flétta jafnrétti allra kynja inn í stefnumótun í loftslagsmálum, enda er ljóst að loftslagsbreytingar hafa mismunandi áhrif á kynin og því mikilvægt að taka mið af þeim í þeim lausnum og aðgerðum sem settar eru fram, og einnig þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum. Norðurlöndin vilja taka forystu þegar kemur að þessu samspili og það ætlum við að gera.“