Hoppa yfir valmynd
18. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch staðfestir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs

Fitch Ratings staðfestir A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og breytir horfum í stöðugar.

Fitch Ratings birti í dag mat á lánshæfi ríkissjóðs. Horfur eru færðar í stöðugar úr neikvæðum og langtímaeinkunnir eru óbreyttar og standa í A.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að breyting á horfum í stöðugar endurspegli viðnámsþrótt efnahagslífsins í kjölfar heimsfaraldurs og væntingar fyrirtækisins um viðvarandi hagvaxtarbata sem ætti að auðvelda hinu opinbera að draga úr hallarekstri og lækka skuldir yfir tíma.

Að mati Fitch hefur viðnámsþróttur íslenska þjóðarbúsins í kjölfar efnahagsáfallsins af völdum kórónuveiru reynst meiri en fyrirtækið hafði væntingar um í upphafi. Efnahagsbatinn skýrist af viðsnúningi í ferðaþjónustu, góðri stöðu áliðnaðarins vegna hækkandi álverðs, viðsnúningi á vinnumarkaði og umtalsverðum stuðningi á sviði ríkisfjármála. Einkaneysla og fjárfesting munu áfram vera helstu drifkraftar hagvaxtar og eru studd af minnkandi atvinnuleysi og fjárfestingarátaki stjórnvalda.

A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspeglar m.a. mjög háar tekjur á mann, góða stjórnarhætti og hátt þróunarstig sem eru sambærilegri við lönd með „AAA“ og „AA“ lánshæfiseinkunn. Lýðfræðileg samsetning landsmanna (hlutfall fólks á vinnufærum aldri var 65% árið 2020) styður enn frekar við hagvaxtarhorfur. Smæð hagkerfisins og takmarkaður fjölbreytileiki útflutnings, sem eykur áhættu gagnvart ytri áföllum, draga lánshæfiseinkunnina niður.

Aukið traust á því að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu taki að lækka með frekara aðhaldi í ríkisfjármálum eða sjálfbærum hagvexti yfir tíma, auk áframhaldandi efnahagsbata eftir árið 2022 sem væri til dæmis til komin vegna aukinnar fjölbreytni í útflutningi án þess að skapa þjóðhagslegt ójafnvægi, gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Vísbendingar um að stefna stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum muni leiða til þess að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall landsframleiðslu taki að hækka á ný, veikari hagvaxtarhorfur eða verulegt áfall, til dæmis vegna hægari bata í ferðaþjónustu en búist var við, viðvarandi leiðréttingar á fasteignamarkaði og verulegra skaðlegra áhrifa á bankageirann, gætu leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.

Skýrsla Fitch

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta