Hoppa yfir valmynd
22. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi um verulega fjölgun rafmagnsbíla sem fá VSK-ívilnun birt í samráðsgátt

Lagt er til að fjölga rafmagnsbílum sem geta fengið ívilnun í formi niðurfellingar VSK úr 15.000 í 20.000 með frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda. Ívilnanir hafa nú verið nýttar fyrir um 12.300 bíla og útlit fyrir að fjöldatakmörkun náist að óbreyttu síðar á árinu.

Undanfarin tíu ár hafa stjórnvöld stutt við kaup á vistvænum bílum með skattaívilnunum fyrir á þriðja tug milljarða króna. Fyrir vikið hafa orkuskipti fólksbílaflotans gengið vel og er Ísland á meðal fremstu þjóða á heimsvísu í rafbílavæðingu. Vistvænum bílum hefur þannig fjölgað verulega undanfarin ár, en hlutdeild þeirra í nýskráningum jókst úr 22% árið 2019 í 46% árið 2020 og á árinu 2021 fór hlutfallið upp í 58%. Þegar litið er til fyrstu tveggja mánaða þessa árs má sjá að hlutfallið er nú komið upp í tæp 70% þar sem hlutdeild rafmagnsbíla er 39% og tengiltvinnbíla 31%. Auk VSK-ívilnunar við kaup á bíl er rekstrarkostnaður vistvænna bíla að jafnaði lægri en bensín- og dísilbíla. Hin stóraukna hlutdeild vistvænna bíla í fólksbílaflotanum, einkum allra síðustu ár, ætti einnig að birtast í auknum mæli á markaði með notaða bíla. Þannig munu hagkvæmir og umhverfisvænir bílar standa fleirum til boða, til dæmis tekjulægri fjölskyldum.

Til að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur á síðustu misserum í fjölgun nýskráðra rafmagnsbíla er mikilvægt að halda stuðningnum áfram um tíma með því að hækka fjöldatakmörkun rafmagnsbíla sem fá ívilnun. Þá er í frumvarpinu lagt til að ný fjárhæðarmörk vegna kaupa á hreinorkubílum taki gildi frá og með 1. janúar 2023 og verði niðurfelldur VSK að hámarki 1.320.000 kr. fyrir hvern bíl á árinu 2023.

Á myndinni hér að neðan sést hvernig rafmagnsbílar sem fengu VSK-ívilnun á árinu 2021 dreifast eftir verði bíls. Algengast er að verðið sé á bilinu 4,5 til 5,5 m.kr. Af 4.501 bíl sem fékk ívilnun var VSK felldur niður að fullu af tæplega 4.000 bílum en í tilviki 527 bíla var VSK felldur niður að hluta. Í þeim tilvikum nam VSK að jafnaði 5% af verði í stað 24% ef engin ívilnun hefði verið veitt.

 
 

Ívilnun vegna endursölu vistvænna bíla sem nýtist bílaleigum

Í sama frumvarpi eru einnig lagðar til breytingar á VSK-ívilnun vegna endursölu á vistvænum bílum. Slík ívilnun nýtist þegar þeir aðilar selja notaðan bíl sem geta talið VSK af kaupverði til innskatts , t.a.m. bílaleigur. Annars vegar er lagt til að kveðið verði skýrt á um að VSK-ívilnunin nái ekki eingöngu til bíla sem eru þriggja ára eða yngri við endursölu heldur einnig til bíla sem eru eldri en þriggja ára. Hins vegar er lagt til að VSK-ívilnunin verði ekki lengur bundin við fjöldatakmörkun bílanna, sem gerir það að verkum að hún félli niður um leið og fjöldatakmörkun væri náð, heldur gildi hún í staðinn út árið 2023.

12,4 milljarðar felldir niður frá upphafi ívilnunarkerfisins

Frá upphafi ívilnunarkerfisins, 1. júlí 2012, hefur ríkið fellt niður 12,4 ma.kr. VSK vegna kaupa á hreinorkubílum, þar af 5,2 ma.kr. á síðasta ári og yfir einn ma.kr. frá sl. áramótum. Séu tengiltvinnbílar meðtaldir nema ívilnanir frá upphafi 25,2 ma.kr. Líkur eru á að fjöldatakmörkun tengiltvinnbíla verði náð á næstu mánuðum. Mikilvægt er að láta þá staðar numið í að niðurgreiða kaupverð tengiltvinnbíla en halda áfram stuðningi í formi VSK-ívilnunar fyrir hreinorkubíla, þ.m.t. rafmagnsbíla.

Þá hefur hleðslustöðvum fyrir almenning fjölgað umtalsvert á síðastliðnum misserum og eru þær nú að nálgast 400 talsins um land allt. Net hleðslustöðva er því orðið nokkuð þétt og reglulegt, en það er viðvarandi verkefni að bæta hleðsluinnviði enn frekar á komandi árum.

Umsagnarfrestur vegna málsins í samráðsgátt er til og með 29. mars.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt (fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða o.fl.)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta