Svandís á stefnumóti við sjávarútveginn
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, ávarpaði nemendur Háskóla Íslands og stjórnendur í sjávarútvegi á Stefnumóti við sjávarútveginn sem er fastur liður í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi við Viðskiptafræðideild HÍ. Þar gefst nemendum kostur á að ræða við stjórnendur í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Í ár var stefnumótið helgað konum í sjávarútvegi með yfirskriftinni; Horft úr brúnni – Hvar eru konurnar?
Í ávarpi sínu kom ráðherra meðal annars inn á þá staðreynd að þrátt fyrir karllæga slagsíðu í sjávarútvegi í gegnum tíðina væru til fjölmargar frásagnir af konum eins og Þuríði formanni sem hefðu sýnt hugdirfsku og útsjónarsemi við sjósókn. Þuríður stundaði sjóinn frá ellefu ára aldri þangað til hún varð 66 ára gömul, jafnan sem formaður á áttæringi og fékk sérstakt leyfi sýslumanns til að mega klæðast „karlmannsfötum.“
Svandís sagði umræðuefni þessa stefnumóts því vera tímabært enda jafnrétti henni sérstaklega hugleikið og eitt af þeim málum sem hún hafi sett í forgang í nýju ráðuneyti matvæla. Í ávarpi sínu sagði Svandís einnig eftirfarandi:
Vert er að benda á áhugaverða rannsókn um stöðu kvenna í sjávarútvegi árið 2021 sem unnin var fyrir félag kvenna í sjávarútvegi og kynnt var fyrr í mánuðinum. Þar kemur í ljós konum hefur fjölgað í störfum tengdum sjávarútvegi á síðustu fimm árum, en enn sem komið er fjölgar þeim hægt. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hefur hækkað frá 16% upp í rúm 24% sem er þróun í rétta átt þó vissulega væri gott að sjá hraðari fjölgun.