Hoppa yfir valmynd
23. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp heilbrigðisráðherra um stjórn Landspítala komið til umfjöllunar Alþingis

Landspítali - myndHeilbrigðisráðuneytið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu sem kveður á um skipan stjórnar Landspítala og er það nú komið til umfjöllunar velferðarnefndar Alþingis. Með skipun stjórnar er horft til þess að styrkja stjórnun og faglegan rekstur spítalans í ljósi hlutverks hans sem stærstu heilbrigðisstofnunar Landsins. Stjórninni er einnig ætlað að fylgja eftir ákvörðun um uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og gegna stefnumarkandi hlutverki í þeirri þróun.

Frumvarpið er liður í innleiðingu þeirra áherslumála sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um stöðu og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsins. Við gerð þess var meðal annars litið til stjórnskipulags sjúkrahúsa annars staðar á Norðurlöndunum, líkt og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu.

Samkvæmt frumvarpinu mun heilbrigðisráðherra skipa stjórn spítalans til tveggja ára í senn, alls sjö stjórnarmenn og tveir til vara. Tveir stjórnarmanna skulu vera fulltrúar starfsmanna með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar. Stjórnin skal í samráði við forstjóra Landspítala marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk spítalans samkvæmt lögum. Í frumvarpinu er gerð nánari grein fyrir hlutverki og ábyrgð stjórnarinnar annars vegar og forstjóra hins vegar. 

Skipun notendaráðs í heilbrigðisþjónustu á landsvísu

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sjö manna notendaráð í heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra skipar samkvæmt tilnefningum frá starfandi sjúklingasamtökum. Notendaráði er ætlað að veita forstjórum heilbrigðisstofnana og stjórn, þegar það á við, ráðgjöf og aðhald með virku samráði til að tryggja að sjónarmið notenda komi til skoðunar við ákvarðanatöku um skipulag og rekstur heilbrigðisstofnana. Fjöldi sjúklingasamtaka starfa hverju sinni og má ætla að ráðherra ákveði hverju sinni hvaða sjúklingasamtökum hann óskar eftir tilnefningu frá en gert er ráð fyrir að ætíð séu fulltrúar í notendaráði frá stærstu starfandi sjúklingasamtökunum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta