Nikótínvörur felldar undir lög um rafrettur samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra
Gert er ráð fyrir að sömu reglur muni í meginatriðum gilda um nikótínvörur og nú gilda um rafrettur samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra sem hann mælti fyrir á Alþingi í gær. Meginmarkmiðið er að tryggja gæði og öryggi þessa varnings og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn kaupi hvorki né noti nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
Frumvarpið felur í sér breytingu á gildandi lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur og mun heiti laganna breytast til samræmis við efnið og verður „lög um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur“.
Nikótínvara telst sú vara sem ekki er til innöndunar og inniheldur nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki og varan inniheldur að öðru leyti ekki önnur efni sem unnin eru úr tóbaki, til dæmis nikótínpúðar.
Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:
- Innleitt verður 18 ára aldurstakmark við kaup og sölu á nikótínvörum líkt og gildir um rafrettur og áfyllingar á þær.
- Óheimilt verður að auglýsa nikótínvörur, á sölustöðum mega þær ekki vera sýnilegar og óheimilt verður að merkja umbúðir með texta eða myndmáli sem höfðar til barna og ungmenna.
- Óheimilt verður að selja nikótínvörur í grunn- og framhaldsskólum og á öðrum stöðum sem ætlaðir eru til félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna.
- Óheimilt verður að flytja inn, framleiða og selja nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð.
- Eftirliti með öryggi nikótínvara og merkingum og eftirlit með auglýsingabanni verður hagað á sama hátt og nú gildir um rafrettur og áfyllingar á þær.
Með framangreindum breytingum verða settar skýrar reglur um hvernig heimilt er að markaðssetja og selja nikótínvörur sem hefur ekki verið kveðið á um fram að þessu í lögum.