Hoppa yfir valmynd
24. mars 2022 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi NATO

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat í dag leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel, ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Tilefni fundarins var að ræða innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögð NATO í bráð og lengd. Eining var rætt um áframhaldandi stuðning við Úkraínu en Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað.

Í yfirlýsingu leiðtogafundarins er ólögmætur hernaður Rússlands gegn Úkraínu harðlega fordæmdur, rússnesk stjórnvöld hvött til að hætta öllum árásum og skorað á þau að hefja tafarlaust friðarviðræður. Sérstaklega er skorað á rússnesk stjórnvöld að hleypa óbreyttum borgurum frá borginni Mariopol. Samþykkt var að styrkja varnarviðbúnað á austurvæng NATO með herliði í Ungverjalandi, Slóvakíu, Búlgaríu og Rúmeníu. Frekari ákvarðanir um styrkingu fælingar- og varnargetu bandalagsins eru í undirbúningi og verða lagðar fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Madrid í lok júní. Ríki heims, þ.m.t. Kína, eru hvött til að standa vörð um alþjóðalög, fullveldi ríkja og friðhelgi landamæra, í samræmi við stofnsáttmála SÞ.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Hörmungar vegna mannfalls og eyðileggingar í Úkraínu eru mér efst í huga, stríð bitna fyrst og fremst á saklausum borgurum. Konur og börn eru sérstaklega útsett fyrir stríðsglæpum, þar með talið kynbundnu ofbeldi, og við því þarf alþjóðasamfélagið að bregðast. Stilla þarf tafarlaust til friðar og mikilvægt er að halda til streitu kæru gegn Rússlandi fyrir Alþjóðadómstólnum.“

Í tengslum við fundinn tilkynnti Katrín um 150 m.kr. viðbótarframlag til mannúðarstarfs en íslensk stjórnvöld hafa nú samtals veitt rúmlega hálfum milljarði króna til alþjóðlegs hjálparstarfs í Úkraínu. Fyrir liggur að bregðast þarf við fjölþáttaógnum, ekki síst á sviði netöryggismála, en íslensks stjórnvöld munu auka fjárveitingar til þeirra í langtímaáætlunum. Til lengri tíma litið sé nauðsynlegt að stemma stigu við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þá séu áhrif stríðsins í Úkraínu á fæðuframboð og félagslegan ójöfnuð verulegt áhyggjuefni. 

Í heimsókn sinni til Brussel átti forsætisráðherra samtöl við Jonas Gahr Störe, forsætisráðherra Noregs, og Nicolae Ciucă, forsætisráðherra Rúmeníu. Þá áttu forsætis- og utanríkisráðherra fund með Irene Fellin, nýjum fulltrúa NATO fyrir konur, frið og öryggi, en þátttaka kvenna í öryggismálum og friðarferlum er eitt áherslumála Íslands á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Eftir fundinn heimsótti forsætisráðherra höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta