Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi og ánægjulega upplifun ferðafólks
„Samhliða auknum fjölda ferðamanna undanfarin ár og fjölgun alvarlegra slysa sem tengjast ferðaþjónustu, er áríðandi að beina athygli okkar að öryggi þeirra sem ferðast um landið okkar allt árið um kring,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, í ávarpi sínu á málþingi um Öryggi í ferðaþjónustu sem haldið var í Grindavík í dag á vegum Ferðamálastofu og Landsbjargar í Grindavík.
Undanfarin ár hefur farið fram markviss uppbygging að öryggismálum og uppbyggingu ferðamannastaða. Sérstök áhersla er lögð á öryggismál í allri stefnumótun ferðaþjónustunnar.
„Við hljótum að spyrja okkur, hvernig við, fulltrúar stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila, getum náð því sameiginlega markmiði að tryggja öryggi ferðamanna sem sækja Ísland heim. Hvernig við getum gert allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir alvarleg slys og dauðsföll, ásamt því að tryggja ánægjulega upplifun ferðamanna – en í því felst, meðal annars, að ferðamenn upplifi ekki ótta að óþörfu á ferð sinni um landið,“ sagði ráðherra.
Hún nefndi meðal annars farsælt samstarf menningar- og viðskiptaráðuneytisins við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu og Samtök ferðaþjónustunnar um verkefnið Safe travel, upplýsingaveitu fyrir erlenda ferðamenn um færð og aðstæður á ferðalögum.
Annað mikilvægt verkefni er Vakinn sem hefur það að markmiði að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja.
Þá hefur mikil áhersla verið lögð á uppbyggingu ferðamannastaða – ekki síst með öryggi ferðamanna að leiðarljósi. Það hefur verið gert með stórauknum framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og því að beina styrkveitingum sjóðsins í vaxandi mæli að aðgerðum til að bæta öryggi ferðamanna. Þá hefur Landsáætlun um uppbyggingu innviða lagt áherslu á öryggismál auk fjölda annarra innlendra aðila sem að málaflokknum koma.
„Þá er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á samstillt átak allra sem komu að því að tryggja og vakta aðgengi að eldgosinu í Geldingadölum en það var eitt stærsta öryggismál ferðaþjónustunnar meðan það varði,“ sagði ráðherra, en lögreglan á Suðurnesjum fékk sérstaka viðurkenningu á málþinginu fyrir verkefnin sem hún sinnti í tengslum við jarðhræringarnar í Geldingadölum.
Ráðherra sagði mikilvægt að eiga gott samtal um öryggismálin og að með samstilltu átaki geti allir sem að þeim koma gengið áfram veginn „[…]með öryggi, vellíðan og einstaka upplifun gesta okkar að leiðarljósi auk þess sem við gætum þess sama gagnvart þeim löndum okkar sem iðulega leggja líf og limi í hættu til að tryggja öryggi annarra.“
Hér má lesa ávarp ráðherra.
Hér má nálgast allar upplýsingar um fundinn