Fjármálaáætlun: Tónlistarmiðstöð tekur til starfa í upphafi árs 2023
Stofnun Tónlistarmiðstöðvar verður að veruleika strax á næsta ári, en henni er ætlað er að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar.
Í nýrri fjármálaáætlun koma fram áherslur menningarmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um aukinn stuðning við íslenskt tónlistarfólk og mikilvægi þess að Tónlistarmiðstöð taki til starfa í upphafi árs 2023.
Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar hennar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.
„Íslenskt tónlistarfólk er algjörlega frábært og íslensk tónlist hefur öll tækifæri til að geta orðið stöndugur atvinnuvegur sem skapar aukin verðmæti fyrir samfélagið. Stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu mun styrkja innviði greinarinnar enn frekar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.
„Við höfum lagt aukna áherslu á að styrkja og stuðla að viðspyrnu fyrir íslenskt tónlistarfólk eftir þau afleitu tvö ár sem heimsfaraldurinn bar í skauti sér. Tónlistarmiðstöð, sem er löngu tímabær, er stórt og mikilvægt skref sem við stígum fyrir bransann til framtíðar.“
Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.