Hoppa yfir valmynd
29. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Íslands og Finnlands í tilefni af 75 ára stjórnmálasambandi

Þórdís Kolbrún og Pekka Haavisto í Helsinki í dag. - myndUtanríkisráðuneyti Finnlands

75 ára stjórnmálasamband Íslands og Finnlands, samstarfstækifæri í grænum orkulausnum og stríðið í Úkraínu voru meðal helstu umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, í Helsinki í dag. 

Þórdís Kolbrún er í þriggja daga opinberri heimsókn í Helsinki í tilefni af því að um þessar mundir eru 75 ár síðan Ísland og Finnland tóku upp formlegt stjórnmálasamband. 
Með í för er viðskiptasendinefnd Íslandsstofu og íslenskra fyrirtækja sem eru leiðandi í grænum orkulausnum. 

„Það er ákaflega ánægjulegt að fagna 75 ára stjórnmálasambandi Íslands of Finnlands. Löndin eiga í nánu samstarfi á ýmsum sviðum og til staðar eru fjölmörg tækifæri til að styrkja og dýpka sambandið enn frekar. Finnum hefur tekist afar vel að marka sér sess sem alþjóðlega viðurkennd miðstöð nýsköpunar. Fjölmörg spennandi dæmi eru um samstarf milli Íslendinga og Finna á sviði nýsköpunar og viðskipta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á fundi sínum ræddu þau Þórdís Kolbrún og Pekka Haavisto tvíhliða samband Íslands og Finnlands á þessum tímamótum, tækifæri sem felast í samstarfi  á sviði grænna orkulausna, baráttuna gegn loftlagsbreytingum og stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess á öryggismál í Evrópu. Ráðherrarnir héldu blaðamannafund að fundi loknum þar sem finnskum fjölmiðlum gafst tækifæri til að spyrja spurninga. 

„Við Haavisto vorum á einu máli um að samstaða vinaþjóða skipti sköpum á þessum viðsjárverðu tímum. Um leið og standa yrði þétt við bakið á Úkraínu yrði jafnframt að gera stjórnvöldum í Rússlandi ljóst að hryllileg framganga þeirra gagnvart Úkraínu verði þeim dýrkeypt,“ sagði utanríkisráðherra.

Í morgun sótti ráðherra málþing um grænar orkulausnir í boði Business Finland með þátttöku Íslandsstofu, Green by Iceland og íslenskra og finnskra fyrirtækja í grænni orkuframleiðslu og loftslagslausnum.

Síðdegis hélt utanríkisráðherra á fund forseta Finnlands, Sauli Niinistö og móttöku í sendiherrabústað Íslands í Helsinki í tilefni afmælisins.

 
  • Þórdís Kolbrún á fréttamannafundinum í dag - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta