Nýtt hafrannsóknaskip á sjóndeildarhringnum
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, undirritaði í dag samning um smíði nýs hafrannsóknaskips við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armón ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Þorsteini Sigurðssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar.
Í ávarpi sem matvælaráðherra flutti við athöfnina sagði hún rannsóknir á náttúrunni vera grundvöll að þekkingu og ákvörðunum, bæði til nýtingar auðlinda og verndunar.
Matvælaráðuneytið leggur áherslu á að matvælaframleiðsla styðji í enn meira mæli en áður við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og hafs. Hið nýja skip og rannsóknamöguleikar þess mun því vera öflugt tæki sem mun styðja við þessi markmið matvælaráðuneytisins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti einnig ávarp þar sem hann talaði meðal annars um mikilvægi þess að fjárfesta í rannsóknum til að styðja við verðmætasköpun sjávarútvegsins.
Það er mjög ánægjulegt að vera á þeim stað núna að við getum að fullu staðið við þau áform og þá miklu fjárfestingu til framtíðar sem nýsmíði á skipi óhjákvæmilega er. Nú við stefnumörkun fjármála til næstu fjögurra ára sjáum við fram á betri efnahagshorfur en spár gerðu ráð fyrir og áframhaldandi getu til fjárfestinga í mikilvægum innviðum. Fjárfesting í aukinni og betri rannsóknargetu til að styðja við eina af okkar undirstöðuatvinnugreinum er stórt skref og ástæða til að óska Hafrannsóknarstofnun og þjóðinni allri til hamingju með þennan merka áfanga.Nýja skipið mun koma í stað rs. Bjarna Sæmundssonar sem hefur nú þjónað stofnuninni í 52 ár. Við hönnun skipsins hefur mikil áhersla verið lögð á að það verði eins umhverfisvænt og sparneytið og unnt er.
Áætlað er að smíði skipsins taki 30 mánuði og að það komi til landsins haustið 2024.